Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 3. júní 2003 kl. 16:29

Fjármál Reykjanesbæjar

Þann 20. maí sl. samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar ársreikninga sveitarfélagsins fyrir árið 2002. Í stuttu máli má segja að niðurstöður ársreikningsins sýni að grípa verði til róttækra aðgerða í fjármálum Reykjanesbæjar. Brúttórekstartap bæjarsjóðs árið 2002 er tæpar 700 milljónir eða sem nemur um tæpum 30% af heildar skatttekjum sveitarfélagsins sem á árinu 2002 voru rúmir 2,2 milljarðar.Með sölu eigna tókst að draga úr hallanum auk þess sem gengisþróun reyndist bæjarsjóði hagstæð. Nettótapið reyndist því á endanum vera mun lægra eða tæpar 170 milljónir eða um 7% af heildartekjum. Það sjá allir að svona getur þetta ekki gengið. Það er ekki víst að gengisþróun verði áfram jafn hagstæð og ekki geta menn haldið áfram að selja eignir til þess að fjármagna rekstur bæjarsjóðs því á móti eignunum eru skuldir sem bærinn þarf áfram að greiða af. Því verður að haga rekstri bæjarsjóðs þannig að hann standi undir rekstri sveitarfélagsins, fjárfestingum og afborgunum lána. Það gerði hann svo sannarlega ekki árið 2002 og því mikið og erfitt verk framundan hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, ef takast á að ná endum saman.

Ársreikningurinn er nú settur fram með nýjum og breyttum hætti þannig að samanburður við fyrri ár er ekki auðveldur. Því má segja að nú séu að verða til nýjar viðmiðanir og kennitölur sem ársreikningar framtíðarinnar munu miðast við. Hvernig sem þær kennitölur og hlutföll þróast er alveg ljóst að rekstrarkostnaður bæjarins má ekki verða meiri en tekjurnar. Óvíst er hversu miklu þær aðgerðir, sem bæjaryfirvöld hafa þegar gripið til, munu skila. Það sjáum við ekki fyrr en að ári, þegar ársreikningur fyrir yfirstandandi ár, liggur fyrir. Starfsmönnum hefur fækkað og búið er að selja hluta af eignum bæjarins. Á móti mun bærinn þurfa að greiða húsaleigu fyrir þessar eignir sem mun valda hækkun rekstarkostnaðar enn frekar en nú er.

Nú er unnið að mörgum verkefnum sem ætlað er að skila tekjum í framtíðinni. Má þar nefna uppbyggingu í Helguvík, nýjar lóðir o.fl. Vonandi tekst að snúa þessari óheillaþróun í fjármálum Reykjanesbæjar við.

Kjartan Már Kjartansson,
Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024