Fjárfestum í fólki - fjárfestum í framtíð
Aðalfundur Pírata í Suðurkjördæmi var haldinn í Reykjanesbæ laugardaginn 13.júní 2020. Ný stjórn var kjörin á fundinum og hana skipa þau Albert Svan, Eyþór Máni Steinarsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson, Hrafnkell Brimar Hallmundsson og Vania Cristina Lopes.
Góð mæting var á fundinn, bæði í húsakynnum Pírata í Suðurkjördæmi við Hafnargötu í Reykjanesbæ en einnig í gegnum fjarfundabúnað.
Mikið var rætt um bágt atvinnuástand í kjördæminu og komu fram miklar áhyggjur af velferð íbúanna. Atvinnuleysi á Suðurnesjum í apríl nær tæpum 30% skv. tölum Vinnumálastofnunar. Til viðbótar Covid-19 faraldrinum tók svæðið á sig mikinn skell í kjölfar falls WOW Air. Atvinnuleysi í Vík í Mýrdal og í Skaftárhreppi mun líklega fara upp í 50%. Atvinnuleysi á Höfn í Hornafirði nálgast nú 30% en samhliða hruni í ferðaþjónustu hefur samfélagið þar tekist á við loðnubrest og lélegt ástand í humri. Vestmannaeyjar sjá fram á mikið tekjufall vegna íþróttamóta og þjóðhátíðar sem verða í mýflugumynd miðað við venjulegt árferði. Bláskógabyggð og fleiri sveitarfélög á Suðurlandi sjá fram á mikið tekjufall og atvinnuleysi.
Samþykkt var með lófataki að skora á stjórnvöld að taka þétt utan um einstaklinga og fjölskyldur í landinu samhliða stuðningsaðgerðum í þágu fyrirtækja. Meðal aðgerða sem felast í áskoruninni er hækkun atvinnuleysisbóta, að tryggja rétt námsmanna, einyrkja og þeirra sem hafa verið neyddir í málamyndaverktöku til atvinnuleysisbóta, tryggja ráðningarsamband í gegnum launalaus leyfi á atvinnuleysisbótum í stað fjármögnunar á uppsögnum, tryggja sveitarfélögum stuðning til að sinna fjárhagslegri og félagslegri aðstoð við íbúa sína o.fl.
Stjórnvöld eru ennfremur hvött til meira samráðs í stað glærusýninga og að fjárfesta í fólki og framtíðinni. Stjórnvöld ættu að nýta þetta einstaka tækifæri til að byggja nýtt velsældarhagkerfi en snúa ekki aftur til fortíðar. Horfa til aukins frelsis við handfæraveiðar, horfa til grænna lausna, nýsköpunar og rannsókna, fjárfestinga í náttúruvernd, samgöngum, heilbrigði, menntun og vísindum og styrkja m.a. aukna garðyrkju og fiskeldi á landi.
Hér er áskorun fundarins til stjórnvalda í heild sinni: https://piratar.is/frettir/samthykkt-adalfundar-pirata-i-sudurkjordaemi/