Finndu mig í fæturna
Grikkir eru Evrópumeistarar í knattspyrnu. Þeir unnu sigur á Portúgölum í Lissabon í gær. Jæja, mikið var segir ábyggilega einhver hér úti, það var kominn tími til að fá frið til að horfa á íslenska sjónvarpið. „Var þetta færi eða tækifæri?“ spurði íþróttafréttamaðurinn sem lýsti leiknum. Mörg önnur frábær orð flutu með lýsingunni.
Þó ég eigi minna sameiginlegt með stæltum íþróttamanni, í dag, líkamlega séð en á árunum áður, er ég þó enn með flottan brjóstkassa sem þenur sig út í beltishæð og er nákvæmlega jafn þungur og Tyson.
Það er ekki alslæmt né leiðum að líkjast.
Hér á árunum áður mátti ég ekki heyra bolta skoppa þá fann ég hjá mér löngun til að þjóta út og fá að taka þátt í leiknum.
„Rangstæður“ var kjörið orð og dómur þegar einhver var ósáttur við að hafa fengið á sig mark, óljóst orð með margar merkingar sem hægt var að nota við hentugleika.
Við þekkjum hrópin þegar einhver er óvaldaður við markteig ,, ég er frír, ég er frír, gefð’ann inn í.”
Þetta er ágætis orð sem heyrist vel og notað í merkingunni þegar einhver fær næði til að gera eitthvað samanber frí, frístundir, helgarfrí og svo má áfram telja.
Þegar brotið var á leikmanni fyrir utan vítateig hét það fríspark og merkingin áþekk og ofan greinir.
En í dag notum við orðið aukaspyrna fyrir sömu athöfn og höfum þar óbeina- og beina aukaspyrnu ef ég kann þetta rétt. Óbein aukaspyrna er þegar þarf að gefa boltann áður en reynt er skot á markið.
Væri ekki upplagt að nota orðið fríspark um beina aukaspyrnu og orðið aukaspyrna um þá óbeinu? Þetta er svona hugmynd.
En þetta nýja orðasamband „finndu mig í fæturna“ sem notað var oft í lýsingum á fótboltaleikjum á EM finnst mér frábærlega vel til fundið og kveikti á öðru nýyrði sem mætti nota t.d. á næsta HM.
Talað er um að „einhver eygir von“ að hann sjái að hugsanlega gangi eitthvað upp. Þetta orðatiltæki á sér tengingu við orðið „auga - augu.“
Ég sé fyrir mér fríspark rétt fyrir utan vítateig.
Hrópin og öskrin ganga á milli og til þess sem á að taka spyrnuna: „Finndu mig í fæturna,“ segir einn og tvístígur við vítateigshornið hægra megin og nær markinu er gólað enn hærra „eygðu á mér höfuðið, eygðu á mér höfuðið.“
Vel til fundið orðatiltæki sem auðvelt væri að svara: „Eigðu það sjálfur, ég hef ekkert við það gera!“
Að lokum hvað þetta varðar, var annað orð mikið á ferðinni þegar ég var ungur og er notað enn þann dag í dag: „Þú grísaðir bara á réttu tölurnar í Lottóinu.“
Þetta gamla orð er nú búið að fá enn dýpri merkingu sem útleggst einhvern veginn svona:
„Út af með hetjurnar og fótboltastjörnurnar, inn á með liðsheildina og heppnina.“
Til þess að kóróna merkingu gamla orðsins, væri upplagt að breyta stafsetningunni og skrifa:
„Þetta var GREECE, þetta var hreint GREECE,“ þegar einhverjum tekst að koma boltanum í netið.
Konráð K. Björgólfsson,
Reykjanesbæ