Fernan sem fór
Nú í byrjun febrúar mun fyrsta fyrirtækið úr „óvissuatvinnutækifæra“-pakkanum formlega hefja rekstur þegar Verne Global gagnaverið á Ásbrú verður gangsett. Undirbúningur þess hefur staðið yfir í nokkur ár og hafa forráðamenn þess þurft að stíga yfir nokkra þröskulda á leiðinni. Fleiri fyrirtæki eru í lokaundirbúningi fyrir formlega opnun, m.a. fiskeldi á Reykjanesi, kísilver og síðustu fréttir af samningaviðræðum Norðuráls og HS-Orku lofa góðu fyrir álverið í Helguvík. Framkvæmdir við eins og hálfs milljarðs hjúkrunarheimili við Nesvelli í Reykjanesbæ fara í gang með vorinu auk fleiri verkefna. Þetta mun allt skapa ný störf auk þess sem átak í vinnumiðlun fyrir atvinnulausa í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og verkalýðsfélaga er einnig að fara í gang. Þá eru ótalin aukning í ferðaþjónustu og störfum tengdum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öll þessi atriði munu skapa mörg störf og mun vonandi ýta okkur upp úr hjólförunum. Enda ekki vanþörf á þegar 1500 manns eru atvinnulausir á Suðurnesjum, þar af eru rúmlega þúsund búsettir í Reykjanesbæ, samkvæmt tölum Vinnumálstofnunar frá því í nóvember síðastliðnum. Við ættum því að geta horft með örlítilli bjartsýni til framtíðar og bætt smá brosi við í gegnum tárin. Þetta er að koma.
Í þessu sambandi er vert að rifja aðeins upp í fáum orðum þau risastóru áföll sem hafa dunið yfir svæðið á undanförnum örfáum árum. Þar er hægt að nefna „fernuna“ sem var undirstaða atvinnulífs með tilheyrandi áhrifum sem hún hafði með styrkjum til íþróttalífs og menningar á svæðinu. Þessi ferna er farin en hana skipuðu fjórir risastórir aðilar sem við þekkjum öll eða réttara sagt þekktum: Varnarliðið í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem skapaði yfir þúsund störf í hálfa öld, Íslenskir aðalverktakar og Keflavíkurverktakar sem höfðu einnig mikinn fjölda starfsmanna í vinnu auk þess sem allir þessir þrír aðilar skiptu við mörg fyrirtæki á Suðurnesjum og sköpuðu þannig óbeint mörg störf. Fjórði aðilinn í fernunni er svo auðvitað Sparisjóðurinn í Keflavík, hornsteinn í héraði, sem lifði í rétt rúma öld og hafði gríðarlega mikil áhrif á uppbyggingu samfélagsins á Suðurnesjum. Var lengst af með yfir 50% markaðshlutdeild á Suðurnesjum og lét gott af sér leiða með því að styrkja betur en nokkur annar aðili menningu og íþróttalíf á svæðinu. Þessi ferna hefur horfið af spilaborði okkar Suðurnesjamanna á síðustu fimm til sex árum. Ótrúlegt nokk en þessir aðilar náðu allir háum aldri en sá síðasti, Keflavíkurverktakar, sem hétu síðast Atafl, urðu gjaldþrota nýlega. Það skal því engan undra þó það hrikti í stoðum samfélagsins hér á Suðurnesjum með tilheyrandi erfiðleikum í atvinnulífi og samfélagi. Þessir fjórir aðilar voru vissulega hornsteinn alls hér. Við sjáum það nú þegar þeir eru horfnir. Blessuð sé minning fernunnar. Hennar er sárt saknað.
Það er oft sagt að í áföllum felist tækifæri. Þegar einn gluggi lokist opnist annar. Við skulum nálgast þetta stóra verkefni (að koma okkur á réttan kjöl) þannig. Ungur Suðurnesjamaður sem flutti til Austfjarða til að vinna í nýju álveri þar fyrir nokkrum árum sagði við VF að hann hefði m.a. gert það til að vera tilbúinn í gott starf þegar álver í Helguvík færi í gang. Hingað myndi hann flytja um leið og hann gæti. Hann sagði að álverið á Reyðarfirði hefði bjargað Austfjörðum en hluti af vandamáli við að halda fólki þar í mjög vel launuðum störfum álversins væri þó einhæft og einangrað samfélag. Hér á Suðurnesjum hefur verið uppgangur þrátt fyrir kreppu í menningu hvers konar og íþróttum og þá erum við í mun meira þéttbýli en frændur okkar fyrir austan. Við ættum því að vera tilbúin að taka við nýjum atvinnutækifærum. Þangað til eigum við að einbeita okkur að því að styrkja menntunarstig svæðisins. Hærra menntunarstig mun verða eitt okkar sterkasta vopn í framtíðinni og styrkja stoðir þessa samfélags.