Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ferðaþjónustan á Suðurnesjum
Mánudagur 29. október 2012 kl. 09:41

Ferðaþjónustan á Suðurnesjum

Ég vil byrja á því að þakka Páli Ketilssyni ritstjóra Víkurfrétta fyrir að setja af stað umræðu um ferðaþjónustuna á Suðurnesjum á uppbyggilegum nótum. Páll spyr hvað við getum gert til að selja Suðurnesin.


Fleiri aðila að Markaðsstofu Suðurnesja
Þar til fyrir tæpum fjórum árum var markaðssetning  Suðurnesjanna bundin við kynningu á einstaka fyrirtækjum en ekki svæðinu í heild. Með Markaðsstofu Suðurnesja sem Ferðamálasamtök Suðurnesja stofnuðu 2009 hófst skipulagt starf til að kynna Suðurnesin sem heild í samstarfi með ferðaþjónustufyrirtækjum og  opinberum aðilum  þ.e. Ferðamálastofu, markaðsstofum landshlutanna og nú einnig Íslandsstofu. Upphaflega var það ætlun Ferðamálasamtakanna að  Markaðsstofan yrði sameign SSS og fyrirtækja í ferðaþjónustunni  á Suðurnesjum en úr því varð ekki. Starf Markaðsstofunnar hefur verið vaxandi og víkkað út með upplýsingamiðstöðvum m.a. í Leifsstöð þar sem jafnframt er bókunarþjónusta. Allar mælingar benda til þess að áhuginn á Reykjanesinu sé vaxandi og fleiri og fleiri aðilar hafa áhuga á okkar svæði. Hjá Markaðsstofu Suðurnesja  starfar einn maður að markaðsstarfinu  auk starfsliðs á upplýsingamiðstöðvum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af því að Páll nefnir góðan árangur  Norðlendinga þá starfa hjá  Akureyrarstofu  og Markaðsstofu Norðurlands samtals 9 starfsmenn auk 5 ferðamálafulltrúa víða um Norðurland auk starfsliðs upplýsingamiðstöðva.  Norðlensk sveitarfélög leggja um 100 milljónir króna til markaðsstarfsins meðan sveitarfélögin á Suðurnesjum leggja til 2 milljónir króna. Slagkraftur Norðlendinga  er því miklu meiri en okkar hér á Suðurnesjunum.

Þó Norðlendingar hafi bæði lengri reynslu af markaðssetningu og mun meira fjármagn til að kynna Norðurland er okkar árangur á sumum sviðum mjög góður. Fjölgun seldra gistinótta  á hótelum og gistiheimilum var t.d.  27% á Suðurnesjum árið 2011 meðan hún var  1% á Norðurlandi öllu. Nýtingin á gistirúmum á Suðurnesjum var t.d.  40% í fyrra meðan hún var 31,4% NA en 25,4% á NV. Með því að draga fram þessar tölu er ég  að benda á að oft er hægt að ná árangri með litlum peningum.  Staðan er hins vegar sú í dag að samkeppnin er að aukast milli svæðanna.

Við hjá Markaðsstofu Suðurnesja höfum viðrað þá hugmynd við stjórnendur SSS frá því fyrr í haust að SSS gerist eignaraðili að Markaðsstofunni. Markaðsstofan er á tímamótum og hefur slitið barnsskónum og full ástæða til breytinga. Okkar hugmynd er sú að nýir eignaraðilar sem tækju við rekstrinum ráði sér framvæmdastjóra og móti stefnuna og setji meira fjármagn í starfið. SSS hefur tekið vel í þessa tillögu og vonast ég til þess að í næstu fjárhagsáætlun SSS sjáum við verulegt framlag til markaðssetningar á Suðurnesjunum. Kynning, ráðgjöf og aukið  fjármagn er það sem þarf til að standa undir kröfum tímans.

Fleiri fyrirtæki í afþreyingarþjónustu

Páll minnist réttilega á að það þurfi að búa til sölupakka til að lokka hingað erlenda og innlenda ferðamenn. Markaðssetning er langhlaup þar sem margir þurfa að leggja saman og hefur MS meðal annars fengið sölustjóra ITA til ráðgjafar. Fyrirtækin sjálf þurfa svo að finna sér samstarfsaðila. Það hefur reynst erfitt að halda úti afþreyingu sem keppir við Reykjavík. Hvalaskoðun hefur t.d. lagst hér af þó vonir séu til að það breytist á næsta ári. Bláa Lónið hefur algjöra sérstöðu hér á svæðinu og hefur náð frábærum árangri í markaðssetningu og gætu margir lært mikið af þeim. Auk þess eru nokkur smærri fyrirtæki að ná hér fótfestu.  Hótelgeirinn hefur einnig náð að blómstra vel á Suðurnesjum og er hann næstur á eftir Reykjavík í nýtingu rúma.
Fjöldi ferðamanna um 100 gíga garðinn er um 130-150 þúsund á þessu ári. Gunnuhver, Brúin og Reykjanesviti í 100 gíga garðinum eru einir af fjölförnustu ferðamannastöðum landsins yfir veturinn ekki síður en sumarið. Á Reykjanesinu þarf að byggja upp ferðaþjónustufyrirtæki til að einhverjar tekjur verði eftir. Unnið hefur verið að því síðast liðin ár að ná niðurstöðu í það mál sem hefur nú tekist og hafa Ferðamálasamtök Suðurnesja í samráði við Reykjanesbæ leigt stærstan hluta þess lands í 100 gíga garðinum sem ferðaþjónustan þarf á að halda. Þar með er rutt úr vegi þeirri hindrun  að þar rísi öflugt ferðaþjónustufyrirtæki. Samhliða þessu hefur verið unnið að uppbyggingu náttúrulaugar við Reykjanesvita og hönnun þjónustuhúss við Valahnúk. Þarna eru miklir möguleikar til uppbyggingar.
Af hverju vafðist konunni tunga um tönn?

Ég tek undir með Páli að það er margt sem þarf að gera en það hefur margt verið  vel gert. Uppbygging Gunnuhvers, Brú milli heimsálfa, aðgengið að Garðskagavita, sjónskífa á Keili, gönguleiðir stikaðar, útgáfa korta, kynningar á svæðinu í innlendum og erlendum tímaritum. Hér hafa verið reist einhver flottustu söfn landsins og glæsilegustu sýningarnar. Við eigum margra kosta völ þegar kemur að því að selja Suðurnesin. Það kemur því á óvart að vinkona konunnar sem gisti á tilboði hér í bæ gat ekki fengið leiðbeiningar um eitthvað að gera sér til afþreyingar. Hér eru upplýsingamiðstöðvar, bæklingar og kort sem liggja frammi á öllum hótelum og heimasíðan www.reykjanes.is og heimasíður bæjarfélaganna. Víkingaheimar, Duus hús, safnið um Rúna Júl, Skessan í hellinum, Stekkjarkot, Byggðasafnið í Garði og Fræðasetrið í Sandgerði auk þess sem boðið er uppá í Grindavík og í Bláa Lóninu.  Að vinkonunni skuli ekki hafa dottið neitt í hug er umhugsunarefni. Ég skora á Suðurnesjamenn að kynna sér það sem er á heimasíðunum og í bæklingum. Hver og einn íbúi er sendiherra Suðurnesjanna og með góðri og jákvæðri umræðu um Suðurnesjum náum við langt. Snúum bökum saman Suðurnesjamenn, verum öll í sölugírnum.

Kristján Pálsson

framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurnesja