Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fer atvinnulífið í gang eða ekki?
Laugardagur 9. mars 2013 kl. 19:16

Fer atvinnulífið í gang eða ekki?

Það fer að hitna undir pólitískri umræðu og kapp hlaupið í marga frambjóðendur.Við sjálfstæðismenn höfum valið okkar forystu og frambjóðendur til að koma stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í framkvæmd. Þá snýr umræðan að því sem er mikilvægast, málefnum og framtíðinni. Ég hef sagt það áður að nú eigum við ekki að vera með langa loforðalista. Landsfundur ályktar um flest mál sem stór stjórnmálaflokkur lætur sig varða. Kosningarnar snúast um það hvort á komandi kjörtímabili verði skuldavandi heimilanna leystur og við tryggjum fjárhagslegt öryggi þeirra og hvort við skjótum styrkari stoðum undir atvinnulífið. Þessi tvö atriði eiga að vera forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar með því að vinna verði hafin við að leysa skuldavandann og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Þetta er spurningin um að komast út úr gjaldeyrishöftum, auknar fjárfestingar í atvinnulífinu, verðmætasköpun, fjölgun atvinnutækifæra og auka kaupmátt. Setjum kröfur á atvinnulífið að það standi undir þeim væntingum. Álver í Helguvík verður að komast í gang með því að Norðurál og HS Orka ljúki samningum um verð á orku til álversins. Fyrirtækin verða að rísa undir þeirri ábyrgð sem þau tókust á hendur með því að koma verkefninu af stað. Það eru 10.000 ársstörf í húfi, milljarður á mánuði í tekjur í ríkissjóð og á annað þúsund vel launuð framtíðarstörf. Við þurfum ný tækifæri á Suðurlandi, en þar eru öflugir innviðir til að byggja á. Það er alls staðar hrópað á atvinnu. Og við megum ekki ganga að þeim atvinnugreinum sem staðið hafa undir verðmætasköpun þjóðarinnar nær dauða en lífi. Kvótakerfið er í uppnámi og grundvöllur hagræðingar í  hættu. Við verðum að gæta að því að sá ávinningur sem kvótakerfið hefur skapað verði ekki brenndur á öfundarbáli pólitískrar hefndargirni. En jafnframt að gæta þess hvað hagræðingin gangi langt. Það þarf flóru stærri og smærri fyrirtækja og útgerða sem búa við stöðugt og heilbrigt umhverfi til að starfa í. Nýsköpun og klasaverkefni spretta upp við aðstæður þar sem hlúð er að umhverfinu. Vinnum í anda þeirrar sáttar sem þar skapaðist í upphafi kjörtímabilsins með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Við megum heldur aldrei gleyma þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa barist áfram þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á leiðinni sl. ár. Þar hafa heimilin borið þyngstu byrðina og þeirri byrði verður að létta. Í kosningunum 27. apríl nk. verður kosið um atvinnu og heimilin. Það er grundvöllur hagvaxtar, aukins kaupmáttar og velferðar. Ég mun standa við mitt að koma atvinnulífinu af stað og verja heimilin. Þegar þau loforð verða komin í höfn verða næstu skref stigin. Að setja X við D er leiðin til framfara. Kjósum framfarir í stað stöðnunar.

Ásmundur Friðriksson
skipar 3. sæti á  listaSjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024