Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fallegur bær
Sunnudagur 1. ágúst 2004 kl. 21:18

Fallegur bær

Ég sem þessar línur rita bjó i Keflavík í 54 ár og undi hag mínum þar mjög vel.  Fyrir þremur árum síðan flutti við hjónin frá Keflavík vegna lasleika konu minnar,  Bjarnheiðar Hannesdóttur, sem er borin og barnfæddur Keflvíkingur.   Í dag búum við á Hrafnistu í Hafnarfirði og unum hag okkar vel þar.

Við komum alltaf annað slagið á heimaslóðir þar sem nú búa fimm af sonum okkar.  Það var laugardaginn 17. júlí sem við komum síðast til Keflavíkur í matarboð til Jónasar sonar okkar og eiginkonu hans Ragnhildar Sigurðardóttur þ.e. Jonna og Röggu.  Við höfðum þá ekki komið til Keflavíkur í nokkuð langan tíma að okkur fannst.  Við komum inn í bæinn sunnanverðan eða Garðmegin frá sem heitir Vallarhverfi að ég held.  Þar búa fjórir af sonum okkar.  Það sem við mér blasti var fallegur bær, mikill og fallegur gróður við hvert hús, gott skipulag og allt hreint og fallegt.  Við ókum í gegnum þetta fallega hverfi inn í miðjan bæ að Klapparstíg 4 þar sem Jónas og Ragga búa.  Þar áttum við yndislega kvöldstund með þeim hjónum og foreldrum Röggu þeim Sigga og Siggu.  Ég þakka öllum sem þar voru saman komin fyrir skemmtilegt kvöld og mjög góðan mat. 

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessar línur er sú að mér finnst Reykjanesbær vera einn af fjórum fallegustu bæjum þessa lands.  Það var ánægður maður sem kvaddi Reykjanesbæ þetta kvöld.  Ég vona að ykkur takist að leysa úr atvinnumálum ykkar.  Ég veit að samdrátturinn á Keflavíkurflugvelli veldur erfiðleikum bæði í atvinnumálum og viðskiptum og ég vona að stjórnvöldum Reykjanesbæjar takist að leysa úr þeim málum eins og þeim hefur tekist vel að byggja upp svo fallegan bæ sem raun ber vitni.  Sömuleiðis vona ég að Ljósanótt verði alltaf björt og fögur. 
Megi ykkar alltaf líða sem best í ykkar fallega bæ.

Kær kveðja
Ragnar Jónasson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024