Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Falda leyndarmálið á bakvið markmiðssetningu
Þriðjudagur 4. október 2011 kl. 08:15

Falda leyndarmálið á bakvið markmiðssetningu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ og í tilefni þess verð ég með daglega pistla hér á vf.is þessa vikuna sem ég vona að munu verða þér hvatning í að efla heilsuna þína og hvetja þig áfram. Auk þess vona ég að þú nýtir þér þau fjölbreyttu fræðsluerindi og þá heilsuræktarmöguleika sem núna eru ókeypis í tilefni af heilsu- og forvarnarvikunni.


Heilsu- og forvarnarvikan er tilvalinn tími fyrir sjálfsskoðun. Rétt eins og við förum með bílinn einu sinni á ári í skoðun gætum við notað þessa viku til að skoða okkur árlega. Spurðu sjálfan þig spurninga; Lifi ég heilsusamlegu lífi? Hvernig líður mér? Er ég ánægð/-ur með hvernig ég lít út? Vil ég gera breytingar á heilsufari mínu?


Vikuna getum við svo notað til að setja okkur markmið. Við getum sett okkur langtímamarkmið fyrir næstu heilsu- og forvarnarviku að ári eða skammtímamarkmið til nokkurra mánaða t.d.. Í þessum fyrsta pistli vikunnar ætla ég að einblína á markmið.


Markmiðssetning er eitt það allra mikilvægasta sem við þurfum að huga að þegar við ætlum að ná árangri. Ef við setjum okkur ekki markmið erum við eins og skip á skipstjóra, siglum áfram stefnulaust og vitum ekkert hvar við endum. Mikið hefur verið skrifað um markmiðssetningu og auðveldlega hægt að finna mikið um það hér á netinu, að markmið verði að vera mælanleg, raunhæf, skrifleg og þar fram eftir götunum. Ég vil þó tala um markmið út frá öðrum vinkli.


Ég hef séð af eigin reynslu og lesið eftir sérfræðinga að framsetning á markmiðinu er mjög mikilvæg. Þú þarft að skrifa markmiðin þín jákvætt. Ef markmið þitt er að léttast vil ég ekki að þú skrifir ,,Ég ætla að verða 75 kíló" heldur ,,Ég er 75 kíló". Ástæðan fyrir því að ég segi þér að skrifa markmiðin niður á jákvæðan hátt er sú að undirmeðvitundin á erfitt með að vinna úr neikvæðum skipunum. En til þess að gera markmiðin þín enn öflugri þarftu að hafa tímasetningu á þeim.


Þegar þú hefur skrifað markmiðin þín á þennan máta verður þú að lesa yfir þau helst daglega til að forrita undirmeðvitundina. Þegar þú lest markmiðin þín vil ég að þú ímyndir þér að þú hafir náð þeim. Til dæmis ef þú ert 100 kíló en vilt verða 75 kíló, vil ég að þú sjáir þig sem 75 kíló.


Þetta reynist mörgum erfitt en skiptir mjög miklu máli. Þú verður að byrja á því að sjá sjálfan þig í nýju ljósi. Þegar þú byrjar að breyta þér að innan þá ferðu að sjá breytingar að utan. Frammistaða þín er endurspeglun á sjálfsímynd þína og því þarftu að vera varkár með hvernig myndir þú framkallar í huga þínum. Hvað ertu að hugsa á þessari stundu? Eru hugsanir þínar jákvæðar og uppbyggilegar eða neikvæðar og niðurbrotslegar? Sérðu þig sem þá manneskju sem þú vilt verða? Það sem þú verður að skilja er að undirmeðvitundin gerir ekki greinarmun á raunveruleika og því sem þú ert að hugsa. Því ættir þú alltaf að hugsa jákvætt og sjá þig eins og þú vilt verða. Þegar þú hefur búið til fallega sjálfsmynd áttu að reyna að kalla hana fram eins oft og þú getur. Þetta ferli hjálpar þér að bæta sjálfsálit þitt og þegar sjálfsálit þitt batnar verður þú hamingjusamari. Þegar þú ert hamingjusamur þá er líklegra að þú viljir borða hollan mat og hreyfa þig.


Gangi þér vel

Helgi Jónas Guðfinnsson,
styrktarþjálfari, kennari við ÍAK einkaþjálfaranám Keilis og körfuknattleiksþjálfari


www.styrktarthjalfun.is

www.facebook.com/styrktarthjalfun

[email protected]

www.keilir.net/heilsa