Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 3. mars 2008 kl. 10:08

Fagna alþjóðlegu gagnaveri

Samtökin Sól á Suðurnesjum fagna því að samið hafi verið við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um raforku, gagnaflutninga og lóð fyrir nýtt alþjóðlegt gagnaver á Keflavíkurflugvelli. Þar er tekið mikilvægt skref í áttina að því að koma upp atvinnustarfsemi sem byggir á hátækni-og þekkingariðnaði á Suðurnesjum.

Orkuþörf gagnavers er u.þ.b. 1/10 af orkuþörf hugsanlegs álvers í Helguvík. Með örari bráðnun jökla á undanförnum og komandi árum er hægt að ná þeirri orku út af kerfinu án þess að virkja sérstaklega. Samtökin harma því ummæli forstjóra Landsvirkjunar sem sagði Þjórsá verða virkjaða í þessu tilefni, það væri þá af illgirni einni gert.

Samtökin fagna því einnig að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið upp sömu stefnu og Landsvirkjun varðandi sölu á raforku, þ.e. að leggja aukna áherslu á að selja hana öðrum en álfyrirtækjum. Það er ekki gott fyrir orkufyrirtækin að hafa öll eggin í sömu körfunni en Hitaveita Suðurnesja selur nú þegar umtalsverða raforku í álver Norðuáls á Grundartanga. Vonast verður til þess að líkt og önnur orkufyrirtæki muni Hitaveita Suðurnesja sjá ljósið í þessum efnum áður en verður of seint.

Sem betur fer eru fjölmörg egg í körfum Suðurnesjamanna þessa dagana. Hvaða annar landsbyggðarhluti státar af uppbyggingu á nýjum háskóla, kvikmyndaveri og alþjóðlegu gagnaveri,  og nýtur þess einnig að vera í nálægð við bæði höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöll sem stækkar á hverju ári? Suðurnesjamenn hafa öll spilin í hendi sér, það er bara spurning um að velja bestu eggin.

Orkusamningur Verne Holdings við Landsvirkjun gerir ráð fyrir skuldbindingu um kaup á raforku í stighækkandi magni upp að 25 MW árið 2012.Verne hefur auk þess rétt til að panta allt að 25 MW í viðbót. Það eru þannig í mesta lagi 50 MW sem fara í það að skapa á milli 100-200 störf í gagnaverinu. Gagnaverið skapar svo aðstæður sem eru afar líklegar til þess að leiða til þess að mun fleiri störf skapist á svæðinu þegar önnur fyrirtæki með tengda starfsemi koma þangað í kjölfarið.

Möguleikinn á að velja er til staðar og það er þörf á því að velja á milli. Þó orkan sé mikil hér á Íslandi er hún ekki endalaus. Ríkisstjórnin hefur gert sér grein fyrir þessu og hefur lagt áherslu á að orkufyrirtækin í landinu sjái til þess að orka sé til reiðu fyrir orkufrekan hátækniiðnað eins og gagnaver. Landsvirkjun hefur líka gert sér grein fyrir þessu og nú síðast kveikti Orkuveita Reykjavíkur á perunni. Það er komin tími til þess að Suðurnesjamenn velji rétt.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024