Faglega staðið að ráðningu
- gagnrýni ekki á rökum reist.
Ráðið var í starf forstöðumanns Heiðarholts, skammtímavistunar fyrir fötluð börn og ungmenni, fyrir um 14 mánuðum síðan eða í lok júlí 2011. Frétt þess efnis að Kolfinna S. Magnúsdóttir bæjarfulltrúi í Garði sé ósátt við ráðninguna og telji að ófaglega hafi verið að henni staðið birtist á vef VF í gær, 24. september 2012.
Af því tilefni er rétt að upplýsa hvernig var að málum staðið. Staðan var auglýst tvisvar sinnum. Í fyrri auglýsingunni var það skilyrði sett fram að viðkomandi hefði próf í þroskaþjálfun. Aðeins ein umsókn barst og hafði umsækjandi ekki tilskylda menntun. Var því ákveðið að auglýsa á ný og menntunarkröfur víkkaðar. Í auglýsingunni voru tiltekin helstu verkfni og ábyrgðarsvið sem voru stjórnun og starfsmannahald, umsjón með faglegu starfi og þátttaka í þróun þjónustu sveitarfélaganna á sviði málefna fatlaðs fólks. Þá kom fram að leitað væri eftir einstaklingi sem hefði menntun á sviði félags-, mennta- eða heilbrigðisvísinda, reynslu á sviði málefna fatlaðra, skipulagshæfileika, frumkvæði og leikni í mannlegum samskiptum.
Umsækjendur um stöðuna voru 7 en ein umsókn var dregin til baka.
Umsækjendurnir sex voru allir boðaðir í viðtal til undirritaðra. Í þeim viðtölunum var lagt mat á umsækjendur með hliðsjón af þeim þáttum sem tilgreindir voru í auglýsingunni um starfið. Sömu lykilspurningarnar voru lagðar fyrir alla umsækjendur og í lok hvers viðtals voru svörin metin á fyrirfram ákveðnum skala án þess að spyrjendur hefðu samráð áður en til stigagjafar kom.
Niðurstaðan var að þrír umsækjendur stæðu best að vígi. Leitað var umsagna um þá og að því loknu var lagt heildarmat á umsækjendur með tilliti til verkefna, ábyrgðar, menntunar, reynslu og framtíðarsýnar fyrir starfsemi Heiðarholts. Sú sem ráðin var þótti uppfylla best þessa þætti.
Tillaga um ráðningu hennar var borin upp bæði í bæjarráði Sandgerðisbæjar og í sameiginlegri Fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga og samþykkt þar af fulltrúum allra sveitarfélaganna.
Í frétt VF um þetta mál er gefið í skyn að við ráðningu forstöðumanns skammtímavistunarinnar Heiðarholts hafi venslatengsl við bæjarfulltrúa í Sandgerðisbæ verið metin framar menntun og hæfni annarra umsækjenda. Með framangreindum rökum vísum við þeirri staðhæfingu á bug og getum í fullri einlægni sagt að við mæltum með þeim einstaklingi sem við töldum hæfastan til starfsins.
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri.
Kristín Þyri Þorsteinsdóttir, félagsmálastjóri.