Eygló Harðardóttir í framboð
Eygló Harðardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Meginmarkmið Eyglóar er að endurreisa hin klassísku gildi Framsóknarstefnunnar, þar sem áherslan er á öflugt velferðarkerfi, virka byggðastefnu og frjósamt atvinnulíf þar sem leikreglur eru skýrar og eftirlit einfalt og skilvirkt, segir í tilkynningu.
Eygló var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna fyrir síðustu alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður síðastliðinn vetur. Hún hefur verið mjög virk í starfi á vegum flokksins og er m.a. ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, fulltrúi í miðstjórn Framsóknarflokksins og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Eygló hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. verið aðalmaður í skólamálaráði, setið í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands.
Eygló hefur einnig víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún er einn aðaleigenda og framkvæmdastjóri þorskeldisfyrirtækisins Þorsks á þurru landi ehf og situr sem fulltrúi þess í stjórn Icecod á Íslandi ehf þar sem hún hefur m.a. verið stjórnarformaður. Í gegnum þessi fyrirtæki hefur Eygló verið einn frumkvöðla í þorskeldi á Íslandi. Eygló er jafnframt framkvæmdastjóri ráðningaþjónustunnar Nínukots ehf. Þá hefur hún sinnt margvíslegum störfum í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu í kjördæminu.
Eygló er búsett í Vestmannaeyjum með eiginmanni sínum og tveimur dætrum.