Eyðum óvissunni
Framundan er forsetakosningar, þar sem valið stendur á milli sex frambærilegra frambjóðenda. Fimm eru nýir, og einn er gamall í hettunni. Öll tala þau fyrir breyttum viðhorfum og áherslum til forsetaembættisins, hver með sínum hætti. Samhljómur virðist vera með þeim að veigamesta málið sé að sameina þjóðina á ný eftir holskefluáfalla sem hún hefur orðið fyrir á undanförnum árum.
Einn frambjóðendanna hefur setið á valdastól í tæp sextán ár, og óskareftir umboði þjóðarinnar til að sitja þar áfram. Það gerir hann sökum þeirrar sérstöku óvissu sem hann telur að sé framundan. Um hvað sú sérstaka óvissa á að snúast, eða hversvegna hann einn sé sá maður sem einn getur tekið henni hefur þó ekki verið útskýrt nánar.
„Ísland er stórasta land í heimi,” var hvatning til þjóðarinnar á óvissutímum útrásarvíkinganna. Við vitum nú, og vissum þá að Ísland er hvorki eða hefur verið stórt í landfræðilegum og efnahaglegum skilningi eins og gefið var í skyn með slagorði þessu. Sú vitneskja sem við höfum fengið er að þörf er á breyttu viðhorfi til umgenginnar við þau gildi sem forsetaembættið stendur fyrir sem sameiningartákn þjóðarinnar. Að í það embætti veljist einstaklingur sem veitir okkur þrótt og kraft í von okkar um nýja tíma laus við ábyrgðarlausar upphrópanir tíðarandans hverju sinni.
Ég mun kjósa þann frambjóðanda sem ég tel geti best virkjað þann kraft sem í þjóðinni býr með jákvæðu hugarfari og hefur hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ég mun kjósa Þóru Arnþórsdóttur. Þannig tel ég mig best eyða þeirri óvissu um hvað við tekur, verði allt óbreytt.
Hannes Friðriksson
Reykjanesbæ