Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Evran og Íslandsálagið
Mánudagur 1. apríl 2013 kl. 12:11

Evran og Íslandsálagið

Brýnustu úrlausnarefni stjórnmálanna snúa að skuldamálum heimilanna og gjaldmiðilsmálum. Mestu skiptir að finna leið til að mæta þeim sem keyptu í þenslunni miklu eftir 90% lánasprengjuna og innrás bankanna á húsnæðis lánamarkaðinn. Þessi hópur varð fyrir forsendubresti og þarf að finna færar leiðir til að koma til móts við hann. Bæði í gegnum skattkerfið og auknar vaxtabætur.

Hitt stóra málið lítur að lausn á því tröllaukna vandamáli sem verðlítill, verðtryggður gjaldmiðill í höftum er. En með Íslandsálagi krónunnar borgum við tvær og hálfa íbúð á lánstíma á meðan húsnæðiskaupendur á evrusvæðinu borga rúmlega eina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver er því raunhæfa leiðin að upptöku evru og þar með varanlegri lausn á þeirri ógn við efnahagslegt fullveldi landsins sem agnarsmár gjaldmiðillinn er? Þetta er það sem kosningarnar í vor þurfa einnig að snúast um og svör við því í stað blekkingarleiks og yfirboða sem ekki er hægt að standa við.

Í aðdraganda kosninganna 2009 boðaði Sjálfstæðisflokkurinn „leið að upptöku evru“ með stuðningi AGS og ESB. Hjáleið að myntbandalaginu án aðildar að Evrópusambandinu sjálfu. Hugmyndin var ein margra óraunhæfra um þægilega skyndilausn á gjaldmiðilsmálum okkar, enda hefur ekkert heyrst af henni síðan.

Upptaka evru í gegnum aðild að ESB er eini valkosturinn við verðlitla, verðtryggða krónu í höftum. Það hefur ítrekað verið staðfest. Það merkir hins vegar ekki að við þurfum að bíða í mörg ár frá aðild þar til við getum notið kosta myntbandalagsins. 

Strax í upphafi aðildarferlisins munum við njóta ávinnings. Um leið og við tökum skýra ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild breytist staða okkar og staða krónunnar. Skyndilega munu erlendir krónueigendur vilja halda í krónurnar sínar, því þær munu í fyllingu tímans breytast í evrur. Sá mikli þrýstingur sem nú er á gengi krónunnar vegna vilja útlendinga til að skipta krónum fyrir gjaldeyri mun minnka og afnám hafta verða auðveldara. 

Næsta skref verður svo að Ísland kemst inn í myntsamstarf aðildarríkjanna, ERM II. Um leið og það gerist mun krónan njóta stuðningsumgjarðar af hálfu Seðlabanka Evrópu og enn frekari ávinningur peningalegs stöðugleika koma í ljós. Verðbólgan verður þá minni og við getum hafist handa um að létta verðtryggingaroki húsnæðislánanna af landsmönnum. 

Sú skipti yrðu möguleg með skiptiútboði þar sem útistandandi skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og annarra lánveitenda yrði skipt fyrir evrubréf með föstum vöxtum án verðtryggingar. Í kjölfarið væri hægt að breyta lánskjörum almennings til samræmis við það.

Mikið liggur við að stöðva verðbólguna og aftengja vítahring verðtryggingarinnar. Veik staða krónunnar, verðbólgan og verðtryggingin eru að fara langt með að eyða eignum heimilanna. Hægt er, með aðildinni að EMRII, að losa lántakendur við verðtrygginguna strax á fyrsta ári ESB-aðildar og lenda varanlegri lausn á þeirri ógn við efnahagslegt sjálfstæði landsins sem felst í veikburða peningakerfi.

Þetta er raunhæf leið að upptöku evru.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.