Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Erum við Suðurnesjamenn annars flokks fólk?
Fimmtudagur 11. mars 2021 kl. 12:06

Erum við Suðurnesjamenn annars flokks fólk?

Bráðamóttaka Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) er sú bráðamóttaka á landinu sem tekur á móti næstflestum sjúklingum á eftir bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þannig er hún töluvert stærri en móttakan á Akureyri.  Uppbygging HSS hefur því miður ekki verið í takt við það mikla álag sem er á  stofnuninni. Það vantar einfaldlega fjármuni, starfsaðstöðu og fleira starfsfólk til að hægt sé að veita þá þjónustu sem farið er fram á. Sífellt fleiri íbúar á svæðinu leita til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir heilbrigðisþjónustu. Þar sem oft á tíðum er hægt að fá tíma hjá lækni samdægurs. Fyrir ekki svo löngu síðan óskaði ég eftir símatíma hjá lækni við HSS. Tímann gat ég fengið eftir tíu daga! Heilbrigðisstarfsmenn segja mér að það er sama hvaða stofnun við berum okkur saman við hér heima og erlendis, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er einfaldlega of vanbúinn til að sinna þeim mikla fjölda sem býr á Suðurnesjum, farþegum Keflavíkurflugvallar og ekki síst vaxandi fjölda hælisleitenda sem dvelja á svæðinu og þurfa einnig heilbrigðisþjónustu. Ég efa það ekki að starfsfólk HSS reynir hvað það getur að sinna öllum sem leita til þeirra af bestu getu. Nú hafa hörmulegir atburðir gerst og það er spurning hversu sanngjarnt það er að gera alla stofnunina að blóraböggli. Heilbrigðisyfirvöld og þá sérstaklega heilbrigðisráðherra hafa þá ábyrgð að gera öllum stofnunum kleift að sinna sínu hlutverki og veita góða þjónustu eins og lög kveða á um.

Það er löngu tímabært að efla Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Fyrir því hef ég talað í fjárlaganefnd Alþingis. Bæjaryfirvöld á Suðurnesjum, við alþingismenn svæðisins og ekki síst íbúarnir verða að beita öllum sínum kröftum í að gera heilbrigðisráðherra ljóst alvarleika málsins. Afskiptaleysi stjórnvalda gagnvart Suðurnesjum verður að linna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Birgir Þórarinsson.
Höfundur er þingmaður
Miðflokksins.
[email protected]