Eru Vogamenn orðnir alveg gal?
Þessi orð flugu í gegnum huga minn þegar ég las fréttina um að bæjarstjórn Voga hafi stoppað lagningu Suðurnesjalínu 2 með því að synja um framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Synjunin kemur í kjölfar samþykkis Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur á þessu sama framkvæmdaleyfi. Framkvæmdinni er ætlað að tryggja að Landsnet, sem óskaði eftir framkvæmdaleyfinu, geti komið raforku á sem öruggasta máta til byggðanna á Suðurnesjum. Ekki held ég að deila þurfi um það að brýna nauðsyn ber að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu á raforku til Suðurnesja, til heimila og fyrirtækja á svæðinu, og ekki síst til Keflavíkurflugvallar, eins af stærstu vinnustöðum landsins. En eins og staðan er í dag er afhending raforku til Suðurnesja óörugg og lítið þarf að koma upp á til að rafmagn fari af Suðurnesjunum.
Ég hefði haldið að nóg væri komið af áföllum fyrir Suðurnesin þó hætta á algeru rafmagnsleysi bættist ekki við. Fyrst fór bandaríski herinn af landi brott árið 2006, stóra bankahrunið varð 2008 og nú síðast hrundi ferðamannaiðnaðurinn í kjölfar Covid og öll þau umsvif sem þeim iðnaði fylgdi. Eftir stendur um 25% atvinnuleysi á Suðurnesjum. En nú skal hættan á enn nýju áfalli aukin.
Í samhengi við efni þessa greinarstúfs langar mig aðeins að rifja upp sögubrot fyrir þeim sem nú ráða í Vogum. Fyrir allnokkrum árum síðan var ég virkur þátttakandi í pólitísku starfi á Suðurnesjum, þá sem íbúi í Keflavík. Til að staðsetja þetta betur í tíma þá var þetta á þeim árum þegar Ellert Eiríksson var bæjarstjóri í Keflavík. Þá eins og svo oft áður áttu Suðurnesin undir högg að sækja er varðar efnahagslega stöðu. Starfsemi Varnarliðsins og uppbygging Hitaveitu Suðurnesja báru uppi efnahaginn á svæðinu en sjávarútvegurinn sem eitt sinn var máttarstólpi var að ganga í gegnum miklar breytingar og kvótinn að hverfa frá Keflavík og Njarðvík.
Nú er komið að kjarna þessa pistils. Á þessum tíma var Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum að festa sig í sessi. Sveitarfélögin á svæðinu voru smám saman að átta sig á því að betra væri að starfa saman en að standa endalaust í innbyrðis samkeppni og karpi. Lykilatriði til að vel tækist til við þessa samvinnu sveitarfélaganna var að allir stæðu jafnir þó mismunur á stærð sveitarfélaganna væri mikil, rétt eins og nú er. Passað var vel upp á að hinir „stóru“ beittu hina „smærri“ ekki ofríki. Með þessari dæmalausri samþykkt bæjarstjórnar Voga um Suðurnesjalínu 2 finnst mér þessari góðu jafnræðisreglu algerlega snúið á haus. Hinir smáu beita nú hina stærri fádæmalausu ofríki til mikilla óheilla fyrir alla.
Magnús Ægir Magnússon.
Höfundurinn er rekstrarhagfræðingur, fæddur og uppalinn í Keflavíkurhverfi Reykjanesbæjar.