Eru samgöngumálin svona einföld?
Víkurfréttir birtu stutta frásögn af samtali sem ég átti við blaðamann blaðsins. Þar ræddum við um samgöngumál á Suðurnesjum og kom ég inn á málefni sem tengist uppbyggingunni í kringum Keflavíkurflugvöll og samstöðu okkar Suðurnesjamanna í þessum verkefnum.
Í leiðara blaðsins er svo sú ályktun dregin að það sé einfalt að klára tvöföldun Reykjanesbrautar á næstu tveimur og hálfu ári þar sem Suðurnesin eigi sjö þingmenn, einn ráðherra og einn fulltrúa í umhverfis- og samgöngunefnd. Ef svo væri, þá væri nú lífið hjá okkur á Suðurnesjum auðvelt en heldur verra hjá íbúum annarra landssvæða. Leiðarahöfundur kom þó inn á það í greininni að það væri önnur leið fær en kjördæmapotið til að koma framkvæmdinni á dagskrá. Það er leiðin að forgangsraða framkvæmdum faglega byggt á gögnum um öryggi, hagkvæmni og aðstæðum hverju sinni. Þá leið hugnast mér betur og á þeim grunni hef ég verið að vinna að málinu frá því að ég tók sæti á Alþingi.
Því ætla ég að skýra í stuttu máli hvernig samgönguáætlun verður til og hvernig hún er uppbyggð. Samgönguáætlun er skipt í tvo hluta, annars vegar fjögurra ára framkvæmdaáætlun og 12 ára stefnumótunaráætlun sem er svo skipt í þrjú framkvæmdaráætlunar tímabil. Samkvæmt mínum heimildum er Reykjanesbrautin inni í 12 ára áætluninni og gatnamótum við Krísuvíkurveg og Reykjanesbrautar var flýtt um eitt ár í fjögurra ára áætluninni eftir mikinn þrýsting frá hagsmunaaðilum á því svæði og nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar á s.l. ári. Innanríkisráðherra skipar svo samgönguráð sem undirbýr drög að þessum tveimur skjölum. Formaður samgönguráðs er skipaður af ráðherra og sitja með honum í ráðinu vegamálastjóri, forstjóri Samgöngustofu og forstjóri ISAVIA. Samgönguráð fundar svo með landshlutasamtökum sveitarfélagana og safnar gögnum frá þeim stofnunum sem eiga sæti í ráðinu. Tillaga samgönguráðs fer svo til ráðuneytisins sem getur gert breytingar á henni og tillögurnar svo loks lagðar fram á Alþingi í formi samgönguáætlunar. Þegar ráðherrann hefur mælt fyrir tillögunum á Alþingi koma þær loks til umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar og þar geta allir landsmenn komið sínum sjónarmiðum á framfæri.
Eins og sjá má á þessu ferli þá er búið að vinna mikla vinnu áður en tillögurnar koma til þingsins. Í þessari vinnu er upplýsingum safnað saman og verkefnum forgangsraðað eftir því. Það er svo okkar á Alþingi að fara yfir hvort forgangsröðunin sé fagleg, öryggi í samgöngum sé tryggt og að þjóðfélagslegar hagkvæmar framkvæmdir séu framar öðrum.
Það er þess vegna sem ég segi að við öll, þingmenn, sveitarstjórnir og íbúar svæðisins eigum að koma fram sem einn hópur með upplýsingar til að rökstyðja okkar óskir. Við erum best til þess fallin því við þekkjum okkar svæði best, við þekkjum okkar þarfir best og við erum best í því að forgangsraða okkar áherslum. Ég er vel tilbúinn til þess að aðstoða sveitarfélögin við að koma sínum málum á framfæri á frumstigum samgönguáætlunar.
Þetta þurfum við að gera hvað varðar Reykjanesbrautina og þetta þurfum við að gera vegna þeirra uppbyggingar sem á sér stað núna og er framundan á Keflavíkurflugvelli og nærsvæði hans. Ríkissjóður er að fá af flugvellinum og flugvallarsvæðinu margvíslegar tekjur, t.d. með sölu fasteigna á Ásbrúarsvæðinu og því eðlilegt að þær fari til að mæta aukinni þörf á innviðauppbyggingu vegna uppbyggingar og þróunnar ríkisfyrirtækja.
Hér eru um ein stærstu hagsmunamál Suðurnesja að ræða og því vil ég taka samtal um þau við ykkur á fundi á næstunni. Og vonandi sjáumst við sem flest. Málin eru ekki einföld og við Alþingismenn tökum ekki einir ákvörðun um einstaka verkefni en við eigum að þekkja þær leiðir sem koma málum áfram í samvinnu við ykkur kæru félagar.
Vilhjálmur Árnason,
alþingismaður