Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 10. apríl 2000 kl. 12:35

Eru íbúar í Vogum og á Vatnsleysuströnd ekki Suðurnesjamenn?

Nú á dögunum var Kristnihátíð 2000 haldin í Reykjaneshöllinni í tilefni af 1000 ára kristni á Íslandi. Í kynningunni segir að hátíðin sé samstarfsverkefni sveitastjórna og sóknarnefnda á Suðurnesjum. Fáni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum blakti við hún. Vígslubiskup tiltók m.a. í ræðu sinni að nú minntust Suðurnesjamenn kristnitökuafmælisins. Prestar sóknanna tóku og virkan þátt í athöfninni. Hátíðin var sveitarfélögunum sem að henni stóðu, til sóma í hinu glæsilega mannvirki Reykjaneshöllinni.En var hátíðin hátíð allra Suðurnesjamanna? Nei, það var hún í raun ekki. Eitt sveitarfélaganna stóð ekki að hátíðinni en íbúar þess hafa löngum talið sig til Suðurnesjamanna, a.m.k. síðast þegar ég vissi. Einnig er sveitarfélag þetta virkur þátttakandi í Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það voru íbúar í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem sátu heima meðan Suðurnesjamenn fögnuðu 1000 ára kristni. Hvað veldur því? Eru menn trúlausir í þessari sveit? Nei, sveitarfélag þetta fór inn í Garðabæ til þess að halda upp á afmælið. Nú, hvað olli því? Er eitthvað nýtt undir sólinni þar? Var þetta ekki hátíð Suðurnesjamanna í Reykjaneshöllinni? Jú, svo sagði vígslubiskup. Þannig er málum háttað að presturinn í Garðabæ skal boða þeim Voga- og Vatnsleysustrandarmönnum trúna á Krist. Vogar og Vatnsleysuströnd heyra undir Garðaprestakall. Reyndar gleymdist að láta kirkjukór þeirra Voga- og Vatnsleysustrandarmanna vita af hátíðinni inn í Garðabæ á dögunum, en það er nú önnur saga. Óheppileg prestakallaskipan í Vatnsleysustrandarhreppi kom berlega í ljós nú í áðurnefndum hátíðarhöldum. Stefna ber að breytingum. Knarrarnesi, Vatnsleysuströnd Birgir Þórarinsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024