Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Ertu með grundvallaratriðin í árangursríku heimanámi á hreinu?
    Hvað ungur nemur, gamall temur.
  • Ertu með grundvallaratriðin í árangursríku heimanámi á hreinu?
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 12:00

Ertu með grundvallaratriðin í árangursríku heimanámi á hreinu?

Gylfi Jón Gylfason skrifar.

Leggðu teina

Sumir líkja barninu við járnbrautarlest, sem allir vita að fer betur að renna á teinum en án teina. Ef lestin fer af teinunum endar sú ferð ekki vel. Mikilvægt er að ræða heimanámið við barnið fyrirfram í skólabyrjun eða á fyrstu vikum skólastarfs og hvaða væntingar þú og skólinn hafið um það. Ræddu nákvæmlega fyrirkomulag heimanámsins við barnið. Hvenær það byrjar, hvar og hvenær því lýkur, hve löngum tíma skal varið, væntingar um hegðun og hvaða umbun barnið geti átt von á gangi heimavinnan vel, veljir þú að nota umbun. Kennari og foreldrar eru hér saman í liði og mikilvægt er að kennarinn styðji við heimilið með því að hafa væntingar til nemandans skýrar og koma þeim á framfæri við nemandann.



Alltaf á sama tíma

Best fer á því að hefja heimanám eins fljótt og hægt er eftir að barnið kemur heim. Eiginlega öll börn fyllast notalegri öryggiskennd við að finna að gott skipulag er á heimilinu. Ef heimanámið er yfirleitt á sama tíma minnkar það einnig líkurnar á því að barnið geri ágreining um heimanámið. Þegar líður fram á daginn er barnið orðið þreytt og það eykur líkurnar á að heimanámið gangi ekki vel. Að hafa heimanámið á sama eða svipuðum tíma minnkar einnig líkurnar á því að þú stelist til að fresta því að aðstoða barnið fram á kvöld, þegar það er orðið örþreytt og þú líka.



Njóttu samverunnar með barninu

Skelltu þér í foreldragírinn og einbeittu þér að því að reyna að gera heimavinnu-samveruna notalega með barninu. Jákvæðni er gott veganesti. Flestum börnum finnst gott að spjalla við foreldra og fá sér eitthvað í gogginn áður en byrjað er. Það er erfitt að vinna á fastandi maga. Það þekkjum við fullorðna fólkið líka. Áður en byrjað er er gott að taka vel á móti barninu, spyrja frétta. „Hvernig var í skólanum?“ og fleiri spurningar í þeim dúr eiga hér vel við áður en hafist er handa. Það leggur grunn að því að gera heimavinnuna að ánægjulegu verki.



Taktu heimanámið eins og góða æfingu

Gott er að hita sig upp á því sem létt er, taka stutt hlé og byrja svo að glíma við það sem þyngra er. Gott er að geta lokið heimanáminu á verkefni
 sem barnið eða unglingurinn ræður vel við. Líkt og með góða góða æfingu má alls ekki ofgera barninu, þá gerir æfingin bara illt verra. Ef barnið notar að jafnaði meiri tíma en ráðlagt er til heimanáms samkvæmt tíu mínútna reglunni þarft þú að ræða það sem fyrst við umsjónarkennara barnsins og aðlaga heimanámið að getu þess.



Alltaf á sama stað

Misjafnt er eftir heimilum hvar lært er, eldhúsborðið er algengur staður. Mundu að barninu þínu líður vel í hæfilega skipulögðu umhverfi. Þú sem
 foreldri þarft að ákveða hvað hentar þínu heimili. Hér gildir reglan um skipulagið. Gott skipulag minnkar líkurnar á því að upp komi erfiðleikar og 
að barnið mótmæli. Það sagt, þá er það hluti af eðlilegum þroska að athuga hversu langt maður kemst. Þess vegna skaltu ekki kippa þér upp við það þótt barnið reyni aðeins á mörkin.



Ekki spara hrós og hvatningu!

Börnum þykir gott að finna að við tökum eftir því þegar þau leggja sig fram, vertu þess vegna óspar á hrósið. Eitt öflugasta hjálpartæki þitt í
 heimanáminu er Ömmureglan. Ömmureglan virkar sérstaklega vel í heimanámi. Ömmureglan er afar einföld: Það skemmtilega kemur á eftir verkinu. „Þú mátt fara í tölvuna þegar þú ert búin að læra heima.“ „Þú getur heimsótt vinkonu þína þegar þú ert búin að lesa“ og svo framvegis. Mundu bara að 
Ömmureglunni má alls ekki snúa við til dæmis með því að barnið fái að vera í tölvunni allan daginn gegn loforði um að læra seinna, það virkar sjaldan vel.



Til eru öflugar leiðir til að auðvelda þér heimavinnuna og í næstu grein ætla ég að ræða aðeins um umbun og notkun umbunarkerfa.

Gangi þér vel!
Gylfi Jón Gylfason,
fræðslustjóri Reykjanesbæjar.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024