Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ert þú í framboði?
Mánudagur 15. janúar 2007 kl. 11:56

Ert þú í framboði?

Hver er þessi Gissur Jónsson sem gefur kost á sér í 4.-6. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi? Svarið við því jafnast kannski ekki á við heimsviðburði eins og tunglgöngu Armstrongs, lagasmíðar Bítlanna eða sigurgöngu Manchester United… en vonandi á það samt erindi við þig.

Fyrir utan að vera þrítugur grunnskólakennari búsettur á Selfossi eftir ánægjulega dvöl á Hvolsvelli, vera Skaftfellingur fæddur í vesturhlutanum en uppalinn í austurhlutanum og eiga ættir að rekja í Rangárþing og til Vestmannaeyja þá tilheyri ég stórum hópi framsóknarmanna og annars miðjufólks í íslenskum stjórnmálum sem lætur sér annt um land og þjóð.

Af hverju Framsóknarflokkurinn?
Það er vegna þess að ég legg áherslu á þrjár meginstoðir samfélagsins, þ.e. heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur. Innan Framsóknarflokksins gefst tækifæri til að hlúa að öllum þessum þáttum á bestan hátt vegna þess að Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur sem nýtir bæði kosti félagshyggjunnar og frjálshyggunnar en er ekki bundinn af ókostum þeirra. Á miðjunni tekst okkur líka, öllum til heilla, að nýta mismunandi kosti samvinnu og einstaklingsframtaks allt eftir því hvert verkefnið er.

Heilbrigðismál
Ég vil beita mér fyrir því að á Íslandi sé til staðar öflug heilbrigðisþjónusta sem sinnir öllum landsmönnum hvort sem þeir eiga hér lögheimili eða eru búsettir hér um stundarsakir. Sumir myndu segja að vandi heilbrigðisþjónustunnar liggi í því að hún er ekki arðbær og það skýrist hugsanlega af því að enginn vill þurfa að nota hana. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að heilbrigðisþjónustan eigi ekki að vera arðbær. Hún á að vera öflug, sinna öllum og ávallt til taks þegar á þarf að halda. Viljum við ekki öll að heilbrigðiskerfið sinni börnunum okkar ef þau veikjast? Viljum við ekki líka að þetta gerist án þess að við þurfum að stofna fjárhag fjölskyldunnar í voða?

Menntamál
Eðlilega eru menntamálin mér hugleikin. Fagaðilar vilja að í landinu sé menntakerfi sem sinni allir flóru náms og að menntakerfið sé drifkraftur þess blómlega atvinnulífs sem er nauðsynlegt hverju samfélagi. Ég vil treysta leikskóla og grunnskóla í sessi sem mikilvægustu fyrirtæki þessa lands. Efndir þurfa að fylgja yfirlýsingum um betri skóla og bættan hag nemenda. Skólar eru dýr fyrirtæki en þau eru arðsömustu fyrirtækin á landinu. Viljum við tryggja skólakerfinu það fjármagn sem þarf eða halda þeim í spennitreyju kjarasamninga og karps um vinnutíma?

Samgöngumál
Mér er ekki sama hvernig haldið er á spöðunum í samgöngumálum þjóðarinnar. Auðvitað vilja allir stytta vegalengdir en einnig þarf að spá í hvað framkvæmdirnar kosta. Fyrst og fremst verður þó að hugsa til þess að öryggi vegfarenda sé haft að leiðarljósi. Jafnframt þarf að stytta vegalengdir milli og innan landshluta t.d. með nýjum vegum á hálendinu og meðfram ströndinni. Líklega eru fáir vegir öruggari en göng undir heiðar þar sem veður geta verið víðsjárverð. Hefur engum dottið í hug að bora göng undir Hellisheiði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þoku eða hálku? Já og spara með því heilmikið af rándýru eldsneyti.

Gissur Jónsson
Gissur gefur kost á sér í 4.-6. sæti
 í prófkjöri Framsóknarflokksins í
Suðurkjördæmi 20. janúar næstkomandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024