Er þetta virkilega allt öðrum um að kenna?
Undanfarin ár hafa verið erfið fyrir okkur íbúa hér í Reykjanesbæ. Flest það sem sameinaði og gerði okkur stolt er horfið. Hitaveitan horfin , Sparisjóðurinn fallinn, og HSS berst við að halda sjó í þeirri kreppu sem hvílir nú eins og mara yfir bænum okkar. Flestir hafa valið þá leið að sameinast um að leita lausna á þeim vandamálum er við blasa og unnt er að leysa. Aðrir hafa valið að beina reiði sinni í ýmsar áttir í þeirri von að þannig verði komist hjá að ræða hina raunverulegu ábyrgð. Eða hvernig áfram verði haldið með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
Staðan:
Flest þau verkefni sem kynnt hafa verið til sögunnar virðast nú vera stopp. Álverið er stopp sökum deilna HS Orku og Norðuráls. Gagnaverið er stopp sökum þess að enn hefur ekki tekist að afla þeirra viðskiptavina sem vonir stóðu til. Og Sparisjóðurinn er farin sökum þess að fáeinir menn töldu að sparifé bæjarbúa væru Matadorpeningar sem þeir gætu leikið sé með að vild í áhættufjárfestingum hverskonar. Enginn er maður með mönnum eða Suðurnesjamaður nema hann kenni sem flestum öðum um en þá sem ábyrgðina bera.
Ábyrgðin:
Gott væri að geta trúað því að Árni Sigfússon og meirihlutar hans bæru ekki nokkra minnstu ábyrgð á því hvernig málum er nú háttað, að skuldir bæjarins og sala fasteigna hans féllu hreint ekki undir þeirra ábyrgðarsvið. En veruleikinn talar sínu máli og verður því miður ekki flúinn.
Meirihlutar sjálfstæðismanna undir forystu Árna Sigfússonar ber fortakslausa ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í bænum. Meirihlutar sem fygldu blindri frjálshyggju á flestum sviðum með afleiðingum öllum ljósum, svo sem þeirri að sveitarfélagið rambar á barmi gjaldþrots nánast eignalaust og stórskuldugt.
Fjöreggið, sjálf Hitaveitan okkar, var selt með þeim hörmulegu afleiðingum meðal annars að nýir eigendur virðast ætla að svíkja samninginn við Norðurál um sölu raforku fyrir álver í Helguvík. Loforð Hitaveitunnar og síðar HS Orku voru um 450 mw raforkusölu sem undirstöðu álversins. Nú bjóða þeir 150 mw á 20% hærra verði. Standi þau svik er grunnurinn undir álverinu farinn. Þeir sem þar ganga á bak orða sinna reyna að kenna öðrum um, Orkustofnun og vinstri grænum til dæmis. Ábyrgðin skal vera þar sem hún á heima; hjá þeim sem seldu frá okkur Hitaveituna og misstu þar með forræðið yfir áformum og orkusölu félagsins.
Sparisjóðurinn var einkavæddur aftan frá með útgáfu stofnbréfa og tilheyrarndi skuldsetningu saklausra eigenda bréfanna sem nú bíða milli vonar og ótta um lyktir skuldamálanna vegna kaupanna.
Ríkið gerði síðan það við SPKef það sama og gert var við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Hann var færður inn í ríkisbanka sem stjórnvöld eiga að fullu og öllu eftir fall hans. Hvort við getum gert þá kröfu á ríkissjóð að leggja félaginu til tíu þúsund milljónir í viðbót við þá 10 milljarða sem til þurfti til að bjarga innistæðum sjóðsins er ég ekki viss um. Líkt og fram kom í skýrslu FME frá því í ágúst 2008, nokkrum mánuðum fyrir fall banka og krónunnar, var sjóðurinn kominn fram á nöfina strax árið 2007. Þá ábyrgð bera þeir sem Sparisjóðnum stýrðu á þeim tíma. Ekki ríkisstjórnin þremur árum síðar þó það hafi verið óheppilegt að áformin skyldu spyrjast út áður en starfsfólk vissi af. Fjármálaráðherra hefði mátt ganga skörulegar fram en það breytti engu um niðurstöðuna. Hún var skrifuð í skýin misserum saman.
Reiðin:
Reiðin er eðlilegur fylgifiskur áfalla. Og okkur ber að taka undir og sýna skilning á þeirri réttlátu reiði sem við verðum vör við þessa dagana. En reiðin er tilkomin sökum gerendanna en ekki einhverra þeirra sem voru víðsfjarri þegar atburðirnir áttu sér stað. Þá gerendur er því miður flesta að finna innan bæjarmarkanna. Þar verðum við að velta við öllum steinum svo hið sanna komi í ljós. Á sama tíma og rannsakað verði hvað hefur gengið á inni Sparisjóðnum fari einnig fram rannsókn á fjármálagerningum meirihlutans. Öðruvísi verður ekki reiðin sefuð né fyrirgefning veitt.
Framtíðin:
Lýðræðið í sinni tærustu mynd er göfugt markmið: að minnihluti og meirihluti geti í sameiningu náð fram þeim lausnum sem samfélaginu eru fyrir bestu . Það felst einnig í því að menn hafi kraft og kjark til að ræða það sem að er og taki ábyrgð á því um leið og horft er fram á veginn.
Það vekur athygli að nánast allar fréttir af því sukki og spillingu sem hér hefur viðgengist birtast í fjölmiðlum utan bæjarins. Er óttinn og undirlægjuhátturinn orðin svo mikill að staðarblöðin þora ekki að fjalla um þau meginmál sem í umræðunni eru? Er það þessvegna sem bæjarbúar upplifa staðarblöðin nú á sama hátt og íbúar Rússlands upplifðu „Pravda“ forðum daga? Staðarblöðin verða að hafa skýra sýn á hvert þeirra hlutverk er ætli þau sér að sinna þeirri samfélagslegri ábyrgð sem eftir er kallað. Þau eiga að spyrja áleitinna spurninga og birta fréttaskýringar um þau mál sem brenna á hverju sinni.
Mikilvægast er þó að ég og þú – við sem erum íbúar þessa svæðis höldum vöku okkar og látum ekki þá sem ábyrgðina bera varpa henni frá sér á herðar þeirra sem saklausir eru af þeím óförum sem samfélagið okkar þarf að þola. Að öðrum kosti tekst okkur ekki að snúa þeirri stöðu sem við erum í og hefja hina sönnu uppbyggingu.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson