Er þetta eðlilegt ástand?
Guðmundur Bragason skrifar.
Margir eru að pukrast með þetta og ræða í laumi en nú er nóg komið, þetta ástand gengur bara ekki lengur!
Íbúafundurinn í gærkvöldi og fundur hjá aðalstjórn UMFG í fyrrakvöld opnuðu augu mín með hvað er búið að vera í gangi í ákvörðunum íþróttamannvirkja í Grindavík síðustu ár.
Á stjórnarfundi UMFG opinberaði formaður UMFG hversu mótfallinn hann er að reisa nýjan íþróttasal eins og allflest öll rök mæla með. Það var eins og ég væri að ræða við forseta bæjarstjórnar sem hefur verið stífust á móti nýjum íþróttasal nema formaður UMFG var helmingi ákveðnari og sama hvaða rök ég og aðrir stjórnarmenn á fundinum komum með, var ekki hlustað heldur reynt að tína til ný rök á móti íþróttasalnum. Þarna sá ég það sem mig var svo sem farið að gruna fyrir nokkru síðan að formaður UMFG (og faðir forseta bæjarstjórnar) er algjörlega á móti nýjum íþróttasal og hlustar ekki á nein rök með þeirri framkvæmd, þó fjöldamörg séu. Það er síðan hugsanlega efni í aðra grein hvort þetta sé eðlileg afstaða formanns UMFG, þvert gegn vilja forráðamanna deilda þess!
Nú hef ég undanfarna 18 mánuði unnið með forsvarsmönnum deilda UMFG og öðrum sem málinu tengjast í að fá bæjarstjórn Grindavíkur til að breyta áætlunum sínum og byggja nýjan íþróttasal í stað þess að stækka núverandi 30 ára gamalt íþróttahús. Ég hef ávallt reynt að vera málefnalegur og lagt mikla vinnu í að útskýra mál mitt sem best. Allir innan íþróttahreyfingarnar, starfsmenn íþróttamannvirkja og aðrir sem ég hef rætt við segja að þetta sé eina framtíðarlausnin á æfingahúsnæðisþörf körfunnar, fimleikadeildar, almennings, fatlaðra og eldri borgara í Grindavík sem vantar æfingatíma í íþróttahúsi. Að segja allir innan íþróttahreyfingar sem ég hef rætt við er kannski ekki alveg rétt því forseti bæjarstjórnar í Grindavík er harður andstæðingur nýs íþróttasalar, jafnvel þó hún sé varamaður í stjórn Körfuknattleikssambandsins og endurspeglar þar með viðhorf föður síns.
Feðgin þessi eru sem sagt að mínu viti þau sem hafa harðast barist gegn nýjum íþróttasal í Grindavík og ég veit að fjölmargir Grindvíkingar eru sammála mér í því. Á íbúafundinum í gær opinberaði oddviti Samfylkingar síðan stuðning sinn við oddvita Framsóknar í þessu máli og erfitt raunar að sjá að þær vinkonur séu í sitt hvorum flokknum!
Ég hafði á tilfinningunni á síðasta ári þegar ég fór á fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar að kynna tillögur íþróttahreyfingarnar í íþróttamannvirkjum að frambjóðendur G og S lista fylgdu B listanum blint í þessu máli, enda eins og einn sagði þá ætti stjórnarmaður KKÍ að hafa vit á þessum hlutum!
Línur eru að skýrast í þessu máli, því miður virðast skoðanir fyrrnefnds feðgin hafa náð að dreifast innan síns flokks sem annara flokka í meirhlutasstarfi bæjarstjórnar UMFG. Þrátt fyrir að ýmsir hafi lagt mikla vinnu við að koma fram með hugmyndir sem hentuðu notendum mannvirkjanna sem best og fjölmörg rök með nýjum íþróttasal þá var lítið sem ekkert hlustað á því kjörtímabili sem nú er að ljúka.
Nú er bara spurning hvort kjósendur í Grindavík vilja óbreytt ástand næstu fjögur árin í þessum mikilvæga málaflokk sem snertir afreksfólk sem við erum öll stolt af, almennings,eldri borgara og börnin okkar næstu áratugi?
Talað hefur verið um samvinnu í þessum málum en lítið sem ekkert hefur verið talað við starfsmenn íþróttahús um hvaða lausn henti best og ekki hefur rödd okkar hinna náð í gegn,
Þetta er ekki eðlilegt ástand að mínu viti, þessu þarf að breyta og fólk þarf að vita hvað er í gangi í okkar ágæta bæ.
Með Grindavíkurkveðju,
Guðmundur Bragason
Ópólitískur áhugamaður um íþróttamannvirki í Grindavík