Er sameining sveitarfélaga vænlegur kostur ?
Garðurinn á sér langa og merkilega sögu, hann var hluti af Rosmhvalaneshreppi hinum forna, hann náði yfir allan hluta Reykjanesskagans.
Garðurinn verður sjálfstætt sveitafélag 15. júní árið 1908, og fær nafnið Gerðahreppur.
Nafnið Garður er dregið af Skagagarðinum svonefnda sem var 1500 metra langur og er með merkustu fornminjum landsins, hann náði frá túnjaðrinum á Útskálum að túnjaðrinum á Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnastöðum í Kirkjubólshverfi.
Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélagið á Suðurnesjum með 647 íbúa..
Hvað ætli það hafi verið, sem dró fólk til þess að setjast að í Garðinum? Mig grunar að það hafi aðalega verið tvennt, það er að landgæði voru mikil, og stutt á gjöful fiskimið.
Frá upphafi byggðar í Garðinum hafa verið duglegir og framsæknir menn sem áttu frumkvæði að ýmsu sem Garðurinn nýtur enn góðs af í dag, þar má nefna að einn af þremur elstu barnaskólum landsins tók til starfa árið 1872 og er fyrsti skólinn á Suðurnesjum.
Margt annað mætti nefna sem framsækið fólk í Garðinum lét til sín taka og gerir enn. Gífurleg uppbygging hefur verið í Garðinum á sl. fimm árum, frá árinu 2000 hefur verið úthlutað 200 íbúðarlóðum sem allar eru seldar og ekki hefur hafst undan að skipuleggja svæði fyrir nýjar íbúðir. Íbúum hefur fjölgað verulega á síðustu árum, vel hefur gengið að selja eignir í sveitafélaginu og ungt fólk hefur verið að setjast hér að, því hér hefur verið byggt mikið af íbúðum á góðu verði sem unga fólkið hefur ráðið við að kaupa og lóðaverð er lágt. Þetta kemur upp í huga minn núna vegna umræðna um sameiningu Sveitafélaga á Suðurnesjum sem á að kjósa um í byrjun næsta mánaðar. Garðmenn hafa alla tíð verið sjálfstæðir og hafa haft metnað fyrir því að standa á eigin fótum.
Ég velti því mikið fyrir mér þessa dagana, hvort þessi uppbygging haldi áfram í Garðinum ef af sameiningu við önnur sveitafélög verður að ræða, ég fyrir mína parta efast um það. Sveitafélagið Garður stendur mjög vel held ég miðað við önnur sveitafélög af svipaðri stærð. Mikið hefur verið gert í því að fegra og bæta umhverfið, það svo að eftir hefur verið tekið.
Samstarf við nágrannasveitafélögin hafa verið með miklum ágætum í ára tugi, og getur vel verið það áfram um ókomin ár og tel ég því að sveitafélagaskipan hér á Suðurnesjum eins og hún er núna geti vel verið óbreitt um ókomin ár.
Mikið var talað um sparnað við sameiningu sveitafélaga, en hver er niðurstaðan eftir reynslu þeirra sem hafa sameinast? Engin sparnaður, því hefur verið opinberlega líst yfir að svo hafi ekki verið. Hver er þá tilgangurinn?
Eitt stórt atriði í þessu máli er það sem er að koma fram víða um land þessa daganna þar sem fólk lætur í ljós óánægju sína í þessu sameiningaferli er það, að það er engin aðlögunartími og það verður ekki aftur snúið. Þetta ætti fólk að hugsa vel um áður en það gengur að kjörborðinu 8. október nk.
Þetta er mín skoðun á sameiningu Sveitafélaga á Suðurnesjum. Nú er það algjörlega á valdi fólksins í Garðinum hvort það vill sameinast í stórt bæjarfélag eða ekki, hugsið það mjög vandlega.
Nú er spurningin þessi, telur fólk það vænlegra að búa í stóru Sveitafélagi eða í smærra samfélagi sem það kemur til með að geta haft meiri áhrif á uppbyggingu og aðra ákvarðanatöku varðandi eignir og framkvæmdir í okkar góða bæ?
Álítur fólk að það fái betri eða verri þjónustu með því að búa í stóru eða litlu samfélagi ?
Þetta eru spurningar sem fólk ætti að hugsa vel um, áður en það ákveður hvort það vill sameiningu eða ekki.
Garðmenn stöndum saman, tryggjum það að Garður verði áfram sjálfstætt Sveitafélag.
Ásgeir M. Hjálmarsson
Garði