Er lýðheilsa íbúa á Suðurnesjum góð eða slæm?
Nýverið birti Embætti landlæknis niðurstöður lýðheilsuvísa í Hljómahöll eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi en lýðheilsuvísarnir gefa vísbendingar um okkar heilsu. Dæmi þar sem Suðurnes voru frábrugðin öðrum á landinu eru bæði jákvæð og neikvæð.
Þættir sem voru jákvæðir eru að orkudrykkjaneysla framhaldsskólanema er minni hér, hlutfall aldraðra er undir landsmeðaltali og þunglyndislyfjanotkun er einnig undir landsmeðaltali. Við getum glaðst yfir þessum fréttum en þurfum einnig að skoða þessa neikvæðu þætti eins og að hlutfallslega flestir fullorðnir sofa of lítið, fullorðið fólk drekkur of mikið af gosdrykkjum og þátttaka í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbamein er minnst hér og hlutfallslega flestir framhaldsskólanemar hafa prófað kannabis. Þetta eru dæmi um neikvæðar niðurstöður sem eru frábrugðnar öðrum tölum á landinu. Hér eru áskoranir sem við þurfum vinna að með markvissum hætti og stefna að bættri heilsu.
Þegar fulltrúar Embætti landlæknis voru spurðir út í fræðslu um vímuefni lögðu þeir áherslu á forvarnir og góða foreldrafræðslu um afleyðingar kannabisneyslu en það er vandasamara að fræða framhaldsskólanemana því einhverjar erlendar rannsóknir benda til að eftir fræðslu hafa sumir nemendur farið að prófa í stað þess að forðast efnin.
Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er foreldrafélag sem leggur áherslu á forvarnir og vil ég hvetja nýja foreldra til að bjóða sig fram í stjórn í haust, mikilvægt er að halda þessu góða starfi áfram, foreldrar bera ábyrgð á börnunum sínum til átján ára aldurs.
Fram kom í niðurstöðum um lesskilning hjá börnum í 9. bekk að hann mætti bæta og getum við alltaf bætt lesskilninginn hjá öllum grunnskólanemendum en það verður að vera sameiginlegt átak sem allir þurfa að taka þátt í; foreldrar, kennarar, nemendur og sveitarfélagið. En lestur er lýðheilsa og lesskilningur er lykillinn að góðum námsárangri.
Það er ekki nóg að segja fólki að sofa meira, segja nemendum að forðast kannabis og benda svo öllum konum á að fara í skimun fyrir krabbameini. Við þurfum að bregðast við með margvíslegum hætti til að ná til allra íbúa og taka tillit til að við erum fjölmenningarsamfélag og ná til allra á mismunandi tungumálum til að ná til fjöldans.
Auðveldasta aðgerðin væri að allar konur sem ekki hafa farið í skimun myndu hringja strax og panta sér tíma og þetta er áskorun fyrir allar konur. Hugum að betri lýðheilsu allra íbúa í sameiningu og verum stolt að því að vera Heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
bæjarfulltrúi D-listans
BA sálfræði og MBA