Er ekki tími til kominn að breyta?
Guðný Birna Guðmundsdóttir skrifar.
Spennandi tímar eru framundan, sveitastjórnarkosningar eftir mánuð. Aukinn áhugi er á bæjarmálum og mikið af framboðum, loforðum og gylliboðum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar síðan árið 2002. Setjum þessa tímalengd í örlítið samhengi: Árið 2002 varð Manúela Ósk Harðardóttir ungfrú Reykjavík í rauða Tyson kjólnum sínum, Alicia Keys kom fram á sjónarsviðið og þættirnir The Osbournes hófu göngu sína. Flugfélagið Iceland Express var stofnað, Keiko var sleppt í sjóinn og hóf ferð sína til Færeyja, Falun Gong meðlimir voru handteknir í Reykjanesbæ og ég í Fjölbraut! Já, það má með sanni segja að árið 2002 var fyrir löngu síðan.
Burt séð frá kostum og löstum núverandi meirihluta er það mín einlæga skoðun að stjórnarseta einhvers eins flokks í svo langan tíma, alveg sama hvað hann heitir, sé aldrei góð hugmynd. Enginn einn maður eða einn flokkur er ómissandi en ætíð þarf að hafa í huga að ef sama fólkið situr alltaf við stjórn, verður þá ekki ákveðin stöðnun í stefnu bæjarmála? Er litið framhjá nýjum, frjóum og gefandi hugmyndum ef þær koma frá öðrum?
Mótum samfélagið saman
Ég er ný í pólitík. Ég er 32 ára gömul og starfa sem hjúkrunarfræðingur. Ég er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum, á tvö börn og það styttist í þriðju háskólagráðuna mína. Ég hef gaman af áskorunum og því að fylgja málefnum eftir og sjá hugmyndir verða að veruleika. Það hefur því verið gaman að vinna undanfarið að því að móta nýja sýn fyrir Reykjanesbæ með félögum mínum og finna leiðir til þess hvernig við getum mótað saman samfélag grundvallað á jöfnuði, lýðræði, ábyrgð og gegnsæi með fjölskylduna í fyrirrúmi.
Það sem mér þykir sérstaklega spennandi og áhugavert fyrir fjölskyldurnar í bænum er meðal annars það að við ætlum að hækka umönnunargreiðslur og þrefalda hvatagreiðslur. Hvað varðar atvinnumálin tel ég brýnt að við hefjumst handa við að auka komu ferðamanna til Reykjanesbæjar með því að móta skýra stefnu í ferðamálum sem raunhæft er að fylgja eftir með framkvæmdum og öflugu markaðsstarfi. Það að efla Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er mál sem stendur mér mjög nálægt og mun ég leggja allan minn metnað í það. En stefnumálin okkar í heild sinni má finna á xsreykjanesbaer.is
Þar sem er vilji, þar er leið
Mér þykir eitt forgangsefni mjög aðkallandi en það eru allar fjölskyldurnar í bæjarfélaginu sem eru í húsnæðisvandræðum. Samfylkingin og óháðir ætla að leggja mikla áherslu á samstarf við Íbúðalánasjóð til að koma umræddum tómum íbúðum á almennan leigumarkað. Þar sem er vilji, þar er leið.
Kæru íbúar, ég hvet ykkur til að kynna ykkur stefnumál flokkanna af kostgæfni og nákvæmni. Takið þátt í að byggja með okkur heilbrigt, lifandi og skemmtilegt samfélag sem við getum verið stolt af. Nýtið kosningarétt ykkar og takið afstöðu.
Guðný Birna Guðmundsdóttir
hjúkrunarfræðingur og meistaranemi
2. sæti á lista Samfylkingarinnar og óháðra