Er atvinnuuppbygging á Suðurnesjum „moldvirði alþingismanna“?
Á bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 19. maí kom undirrituð með tillögu að bókun vegna uppbyggingar í Helguvík og óskaði eftir því að meirihluti bæjarstjórnar myndi samþykkja hana. Málið var fellt af Framsókn, Samfylkingu og Beinni leið. Sjálfstæðisflokkurinn studdi tillöguna en oddviti Frjáls afls sat hjá.
Tillaga Miðflokksins
Í nýrri skýrslu starfshóps um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum, á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins, kemur m.a. fram að þörf sé á samstilltu átaki og grípa þurfi til öflugra varna gegn þeirri stöðu sem komin er upp vegna algjörs hruns í ferðaþjónustu og starfsemi tengdri henni. Taka ber heilshugar undir þetta enda tölur um atvinnuleysi á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ mjög alvarlegar. Þegar svo er komið að fjórði hver íbúi sveitarfélagsins er án atvinnu, ber stjórnvöldum og bæjarstjórn að leita allra leiða til þess að draga úr fordæmalausu atvinnuleysi.
Borist hafa fréttir af áhuga Atlandshafsbandalagsins (NATO) á uppbyggingu í Helguvík fyrir milljarða króna og að utanríkisráðherra hafi lagt til að það yrði liður í auknum framkvæmdum hins opinbera á Suðurnesjum vegna áhrifa heimsfaraldursins. Yrði af framkvæmdum myndi það hafa verulega jákvæð áhrif fyrir svæðið. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetur ríkisstjórnina til að standa sameinuð í baráttunni gegn þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í atvinnumálum Suðurnesja og útiloka ekkert í þeim efnum.
Furðuleg tillaga meirihlutans
Meirihlutinn; Framsókn, Samfylking og Bein leið, höfnuðu ofangreindri tillögu en komu með eftirfarandi, sem svar við bókun undirritaðar:
Við teljum óeðlilegt að bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ taki undir „sögusagnir“ um áhuga NATO um að ráðast í miklar framkvæmdir í Helguvík sem nemur mörgum milljörðum. Forsætisráðherra sagði á þingi í gær engar upplýsingar hefðu komið fram um meintan áhuga þeirra í þessu máli, en að ef svo væri þyrfti þetta að fara fyrir Alþingi. Við höfum lýst yfir áhuga á uppbyggingu í Helguvík í samstarfi við alla áhugasama aðila en viljum ekki taka þátt í pólitísku moldvirði alþingsmanna. Að öðru leiti viljum við vísa til þeirra bókunar sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi 7. apríl síðasliðinn og allir bæjarfulltrúar skrifuðu undir.
Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 19. apríl staðfesti utanríkisráðherra það sem fram kemur í bókun Miðflokksins. Taldi hann líklegt að málið myndi fá þinglega meðferð í haust. Utanríkisráðherra lagði það til við ráðherranefnd um ríkisfjármál að ráðist yrði í verkefni á Suðurnesjum á vegum Atlantshafsbandalagsins í Helguvíkurhöfn. Umfang framkvæmdanna gæti hlaupið á tólf til átján milljörðum króna. Bæjarfulltrúi Miðflokksins frábiður sér þær aðdróttanir sem fram koma í bókuninni, að um „pólitískt moldviðri“ sé að ræða eða „sögusagnir“ þegar utanríkisráðherra staðfestir með afgerandi hætti að hægt er að ráðast í þessar framkvæmdir. Ekki þarf að fjölyrða um það hversu mikilvægt þetta fjármagn yrði fyrir bæjarfélagið á þessum erfiðu tímum en því hafnar bæjarstjórnin.
Það er mér óskiljanlegt af hverju meirihlutinn gat ekki samþykkt tillögu Miðflokksins. Ég velti einnig fyrir mér hvort að þessi meirihluti ætli sér ekki að vinna með þingmönnum Suðurkjördæmis, til að bæta hag okkar og fá að sitja við sama borð og önnur sveitarfélög varðandi fjármagn til svæðisins. Það virðist ekki vera þar sem að meirihlutinn ætlar ekki að taka þátt í „moldvirði alþingismanna“ eins og þeir komust að orði. Er atvinnuuppbygging í mesta atvinnuleysi sögunnar á Suðurnesjum nú orðið „moldvirði alþingismanna“?
Dæmi nú hver fyrir sig.
Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins
í Reykjanesbæ.