Er álver í Helguvík tálsýn?
Á fundi formanna stéttarfélaga innan ASÍ, sem haldinn var miðvikudaginn 26. október sl. spurði undirritaður forstjóra Landsvirkjunar, sem hélt þar fyrirlestur 3. spurninga varðandi álver í Helguvík.
Spurningarnar voru eftirfarandi:
1. Hvers er óskað af Landsvirkjun varðandi orkusölu til Helguvíkur?
2. Hver væri hugsanlegur afhendingartími þeirrar orku.?
3. Hvort ég hefði skilið það rétt að ekki væri búið að fjármagna álverið í Helguvík?
Svör forstjóra Landsvirkjunar vöktu vægast sagt furðu mína og annara fundarmanna þar sem ekkert var annað út úr þeim að lesa en að það myndu líða mörg ár þar til að við myndum sjá álver rísa í Helguvík.
Svörin við spurningum mínum voru í grófum dráttum þessi.
1. Að óskað væri eftir 150 MW frá Landsvirkjun. Sú orka væri hins vegar ekki til. Búið væri að nýta alla þá orku sem virkja mætti á suðurhluta landsins og ekki yrðu veittar heimildir fyrir frekari virkjunum fyrr en að rammaáætlun lægi fyrir.
2. Gera mætti ráð fyrir að það tæki Landsvirkjun 5 – 6 ár að afhenda umbeðna orku.
3. Forstjóri Landsvirkjunar staðfesti það á þessum fundi formanna ASÍ að fjármögnun Helguvíkur lægi ekki fyrir. Það væru 5 aðilar sem kæmu að þessu verki þ.e Norðurál, HS Orka, Landsvirkjun, OR og Landsnet. Allir þessir aðilar þyrftu að fjármagna sinn hluta framkvæmdarinnar og enginn þeirra myndi skrifa undir skuldbindandi samning fyrr en að allir þræðir hefðu verið hnýttir. Fjármögnun þessarar framkvæmdar færi að mestu leyti fram erlendis og staðan á erlendum fjármálamörkuðum gæfi ekki tilefni til bjartsýni.
Forstjórinn upplýsti fundinn um að það hefði tekið Landsvirkjun hálft ár að fjármagna Búðarhálsvirkjun og það hefði ekki gengið þrautalaust. Sú fjármögnun (25 milljarðar) væri þó tífalt minni en Helguvíkurverkefnið.
Við Suðurnesjamenn höfum verið að gera okkur vonir um að með Helguvíkurverkefninu næðum við að snúa af braut stöðnunar, hefja hér uppbbyggingu og fjölga störfum svo að um munaði. En ræða forstjóra Landsvirkjunar á umræddum fundi gefur því miður ekki tilefni til neinnar bjartsýni.
Ef að þetta er staðan held ég að nauðsynlegt sé að fara að leita nýrra snaga til þess að hengja hatta sína á.
Guðbrandur Einarsson
formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja