Er 9,7% atvinnuleysi viðunandi?
Við Íslendingar stöndum í baráttu við að ná okkur upp úr efnahagslægðinni. Í því sambandi skiptir miklu máli að auka virðisaukandi starfsemi með því að stuðla að sköpun fleiri atvinnutækifæra og auka gjaldeyristekjur. Atvinnuleysi á landinu í september mælist 7,2% og er það óviðunandi ástand og við verðum öll að berjast gegn því að slíkt atvinnuleysi verði viðvarandi í íslensku samfélagi.
Mörgum þykir sláandi hvað nágrannaþjóðir okkar sýna stöðu mála hér á landi lítinn skilning. Hluti skýringarinnar á því er að leiðtogum flestra annarra ríkja þykir atvinnustigið hér einfaldlega ágætt miðað við hvað það er í heimalandi þeirra. Atvinnuleysi í ríkjum OECD mælist nú 8,6% en 9,7% á evrusvæðinu.
Hið mikla viðvarandi atvinnuleysi ESB þjóðanna vegur þungt á þeirri vogarskál sem fær mig til að telja hagsmunum íslensku þjóðarinnar betur borgið utan ESB en innan. Aldrei skulum við láta ESB-sinna eða leiðtoga ESB-landanna sannfæra okkur um að 9,7% atvinnuleysi sé eðlileg og viðvarandi staðreynd fyrir Íslendinga.
Unnur Brá Konráðsdóttir,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi