Enn um málefni DS
Í grein í VF 14. júní sl. svarar Baldur Þ. Guðmundsson formaður stjórnar DS grein minni um fjármál Dvalarheimilanna á Suðurnesjum sem birtist í sama blaði viku fyrr. Umræða okkar Baldurs hefur snúist um rekstrarvanda DS og 17 milljóna króna lífeyrissjóðsgreiðslu vegna lífeyrissparnaðar framkvæmdarstjóra DS.
Að mínu mati gætir nokkurs misskilnings í máli stjórnarformannsins. Í gagnrýni sinni á málflutning minn blandar hann saman tveimur hliðum á málum. Annars vegar hvort krafa um 17 milljónir í lífeyrissjóð framkvæmdarstjóra DS sé lögmæt og hins vegar hvernig fjármagna eigi kröfuna. Í greininni minni var ég fyrst og fremst að fjalla um fjármögnun kröfunnar en ég hef hvergi tekið afstöðu til lögmæti hennar.
Baldur fullyrðir að það sé rangt hjá mér að stjórn DS hafi hafnað kröfunni, einnig telur hann rangt að fjárhagsnefnd Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi aukaframlag vegna hennar. Baldur telur einnig rangt hjá mér að ríkið hafi hafnað kröfunni auk þess sem hann telur rangt að stjórn SSS staðfesti höfnun fjárhagsnefndarinnar. Í grein Baldurs segir orðrétt „Málið var kynnt í stjórn DS sl. haust og var afgreitt á fundi 15. sept. 2011. Hvorki ríkið, fjárhagsnefndin eða stjórn SSS hafa fengið málið sérstaklega til umfjöllunar þannig að ég fæ ekki séð hvernig tilgreindir aðilar gátu hafnað því.“
Um þetta vil ég segja eftirfarandi:
Á fundi DS 15. september 2011 er málið afgreitt eins og Baldur bendir á. Það segir hins vegar ekki alla söguna því jafnframt er samþykkt að vísa afgreiðslu málsins til úrvinnslu fjárhagsnefndar SSS hvað varðar fjármögnun eftirstöðva. Þannig samþykkti stjórnin ekki að taka fé af daggjöldum hjúkrunarheimilanna til að greiða lífeyriskröfuna heldur samþykkti að greiða hana með aukaframlagi frá Sambandi Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS).
Á fundi Fjárhagsnefndar SSS 22. nóvember 2011 var Finnbogi Björnsson framkvæmdarstjóri DS gestur fundarins. Finnbogi kynnti fundarmönnum fjárhagsáætlun DS vegna ársins 2012 og óskaði eftir að sveitarfélögin leggi til kr. 74.700.000,- auk greiðslu vegna uppsafnaðra lífeyrisréttinda framkvæmdastjóra.
Í afgreiðslu erindisins lagði Fjárhagsnefndin til að sökum árferðis hjá sveitarfélögunum á Suðurnesjum verði framlög til DS 2012 þau sömu og 2011.
Á sama fundi fjárhagsnefndar kynnti Finnbogi að ríkið hefði fyrir sitt leyti hafnað því að veita DS aukaframlag vegna lífeyrisskuldarinnar. Höfnunin var byggð á því að laun Finnboga voru hærri en annarra í sambærilegri stöðu hjá ríkinu og því ættu sveitarfélögin sem sömdu við framkvæmdarstjórann um laun að greiða skuldina. Ég hef þær upplýsingar frá aðalmanni Sveitarfélagsins Voga í stjórn DS að framkvæmdarstjórinn hefði gert grein fyrir málinu á sama hátt í stjórn DS.
Á fundi stjórnar SSS þann 5. desember 2011 var fjárhagsáætlun SSS og samanrekinna stofnana og fyrirtækja sveitarfélaga á Suðurnesjum 2012 samþykkt. Einnig voru samþykktar tillögur fjárhagsnefndar SSS eins og þær birtast í fundargerðum nefndarinnar. Þar með tók stjórn SSS undir höfnun fjárhagsnefndar á aukaframlagi til DS vegna þeirra liða sem framkvæmdarstjórinn hafði kynnt fyrir fjárhagsnefnd.
Um meint þekkingarleysi mitt, dómhörku og tortryggni sem Baldur greinir í fyrirspurnum mínum vil ég segja eftirfarandi: Ég sat alla fundi fjárhagsstjórnar SSS árið 2011 fyrir hönd Voga ásamt bæjarstjórum annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ég sat fundinn 22. nóvember þar sem framkvæmdarstjóri DS kynnti kröfuna um uppsöfnuð lífeyrisréttindi sín og bar fram ósk um að SSS fjármagnaði umræddar lífeyrisgreiðslur. Ég tók þátt í umræðu um málið og studdi höfnunina. Ég sit einnig í stjórn SSS með öðrum forsetum bæjarstjórna á Suðurnesjum þar sem afgreiðsla fjárhagsnefndarinnar var staðfest. Ég er einnig varamaður í stjórn DS og hef lagt áherslu á að setja mig vel inn í þau mál sem þar eru á dagskrá. Ég efast því um að nokkur sveitarstjórnarmaður á Suðurnesjum þekki eins vel til þessa máls og ég.
Ég vil að lokum taka heilshugar undir með Baldri þegar hann segir að spennandi tímar séu framundan í öldrunaþjónustunni og við ættum öll að einbeita okkur að því að koma hjúkrunarheimilum á svæðinu í gott horf. Gagnrýnar spurningar, aðhald og opin umræða er að mínu mati skref að því markmiði og vona ég að formaður stjórnar DS deili með mér því sjónarmiði.
Inga Sigrún Atladóttir
forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum