Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Enn um Heilbirgðisstofnun Suðurnesja
Laugardagur 10. janúar 2009 kl. 03:16

Enn um Heilbirgðisstofnun Suðurnesja

Sú stefna sem rekin hefur verið í heilbrigðismálum undanfarinn áratug hefur beðið skipbrot. Ekki seinna vænna að menn átti sig á því. Það má virða heilbrigðisráðherra það til ágætis að vilja taka á úreltu skipulagi, en það er dapurlegt ef hann veður áfram án samráðs við nokkurn mann, skeytir hvorki um sjúklinga né starfsfólk. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs, jafnvel góðum hugmyndum. Árna Sigfússyni virðist nóg boðið og kemur með útspil mitt í aðgerðaplani ráðherrans. ,,Það er gríðarlega mikilvægt að Reykjanesbær taki yfir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að tryggja örugga heilbrigðisþjónustu fyrir svæðið,” segir bæjarstjóri í viðtali við vefrit Mbl og framkvæmdastjóri stofnunarinnar væntir góðs af því, í sama vefriti.

En hvernig hugsar Árni sér yfirtökuna? Þar er allt í þoku og maður verður að spá í orðin milli línanna. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði í formi sjálfseignastofnunar, ,,jafnvel í samstarfi við Landspítalann,”  segir Árni og bætir við; ,,þá væri hægt að reka skurðstofurnar í samstarfi við aðra og vonandi hafa af því einhverjar tekjur til að veita inn í almenna heilbrigðisþjónustu.” Þar sem ráðuneytið mun að líkindum ekki að ausa fé í þetta svæði frekar en önnur, er auðkýfingurinn ,,Róbert Wessman og fleiri inni í myndinni” hvað varðar nýtingu á skurðstofum sjúkrahússins. Þá vitum við það.
Heilbrigðisþjónusta er byggð á þrem lykilþáttum. Sjúklingum og neytendum, læknum og heilbrigðisstarfsfólki og loks kaupanda þjónustunnar, sem hér á Íslandi og í norrænum velferðarþjóðfélögum er samfélagið sjálft, ríkið. Gæðaheilbrigðisþjónusta snýst um að góð sátt sé milli allra þessara lykilaðila, að þjónustan sé skilvirk og skili árangri. Þannig viljum við hafa það í grundvallaratriðum, a.m.k. við sem viljum öfluga velferðar- og samfélagsþjónustu. Það eru ekki allir sammála þessu. Sumir líta til Bandaríkjanna þar sem einstaklingarnir sjálfir greiða fyrir þjónustuna óháð afskiptum samfélagasins og auðmenn sjá ,,viðskiptatækifæri” í sjúklingum, ríkum sjúklingum, meðan aðrir mega deyja drottni sínum.

Nú veit ég að Sigfússon og Wessmann eru a.m.k. ekki fráhverfir viðskiptatækifærum og þá kemur að því að lesa milli línanna. Ég velti fyrir mér hvernig bæjarstjórinn muni skilgreina samningsmarkmið um þarfir okkar Suðurnesjamanna fyrir heilbrigðisþjónustu? Að vísu kom það fram í viðtalinu að eiginkona Róberts Wessmans væri læknir og því öllum hnútum kunn. En hverjir aðrir hafa þekkingu á vettvangi heilbrigðisþjónustufræða hjá Reykjanesbæ, til að takast á við Guðlaug Þór? Engin umræða hefur átt sér stað hér í samfélaginu, hvert skal stefna. Er hugmyndin að gerjast í kollinum á bæjarstjóranum eða er hún fullmótuð bak við tjöldin? Er þetta upphaf að nýrri einkavæðingu þar sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja leikur aðalhlutverkið undir verndarvæng Guðlaugs Þórs með faglegri ráðgjöf og fjármögnun þeirra Wessmannhjóna? Það má vel vera að mörgum hugnist leikritið, átti sig ekki á fagurgalanum í ljósi þess hve illa ráðuneytið hefur leikið Heilbrigðisstofnun Suðurnesja undanfarin ár. Staðan verði ekki verri.

Ég vara við. Við verðum fyrst að skilgreina þarfir okkar og setja fram kröfur um örugga og öfluga grunnþjónustu í heimabyggð með hátæknisjúkrahús að bakhjarli eða þess vegna einkareknar læknastofur sem ríkið hefur samið sérstaklega við og starfa í skilgreindu samhengi við íslensku heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Hingað til hefur skort pólitískan vilja til að reka hér skilvirka og öfluga heilbrigðisþjónustu, þar sem tekið er tillit til raunverulegra þarfa neytenda og sjúklinga, þar sem tekið er mark á sjónarmiðum heilbrigðisstarfsfólksins í sátt við hagkvæmissjónarmið kaupandans, samfélagsins alls.  

Glundroði ráðherrans, patentlausnir bæjarstjórans og einkavæðing leiðir til mismununar og dýrari þjónustu, eða hvort ætlast bæjarstjórninn til að við kaupum okkur inná Wessmann hjónin ef heilsugæslan er lokuð, bráðamótakan óstarfhæf og doktor Konráð í fríi - til að ,,hafa af því einhverjar tekjur til að veita inn í almenna heilbrigðisþjónustu” svo notuð séu orð Árna Sigfússonar sjálfs.

Skúli Thoroddsen
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024