Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Enn um fuglana...
Mánudagur 21. júní 2004 kl. 12:16

Enn um fuglana...

Nokkuð hefur verið rætt um fuglalífið í Sandgerði og næsta nágrenni hér á heimasíðunni, enda setja fuglarnir hér mikinn svip á umhverfið. Fyrrverandi nemandi grunnskólans sem var á leið í menntaskóla sagðist myndi sakna þess mest að heyra ekki mávahláturinn á vorin, en mávahlátur snemma dags á þýðum vordegi er mjög hlýleg uppákoma og þótt ótrúlegt sé þá gefur þessi hlátur sól í hjarta. Það lítur út fyrir að mávarnir haldi mávaþing á vorin því þeir hópa sig saman á vissum stöðum hér í kring áður en varp þeirra hefst og virðast yfirleitt velja sömu staðina ár eftir ár. Þeir hafa t.d. valið sér móana fyrir neðan Miðtún og Norðurtún og hópast þar á veginn sem liggur niður í fjöruna þar. En þeir verpa ekki þarna, líklega er þetta of nærri mannabyggðum. Fáir fuglar eru varfærnari í samskiptum sínum við manninn en mávurinn. Hann veit að maðurinn verður seint vinur hans. Þess vegna verpir hann aðeins þar sem gott útsýni er og í hæfilegri fjarlægð frá byggð, en þó svo nærri að hann geti nýtt sér allt matarkyns sem frá manninum kann að falla. Kannski hefur þessi fugl meira vit en flestir fuglar. En þótt hann virðist lifa í miklum vellystingum og hafa nóg að éta þá herma sögur að oft sé þröngt í búi hjá honum þegar unga-tíðin sé liðin hjá, vegna þess að erfitt sé að nálgast úrgang síðan maðurinn varð svona hreinlegur. Þá svelti hann heilu hungri.
Fyrst mávurinn er hér á dagskrá langar mig til að segja smá sögu. Það var í litlum bæ úti á landi að nokkrir krakkar náðu að handsama máv. Í barnaskap sínum lituðu þeir mávinn rauðan með matarlit og slepptu honum svo. Krakkarnir voru kátir með verk sitt í u.þ.b. 2 mínútur, en ekki lengur því að þá birtist mávager og réðist á rauða mávinn. Það liðu ekki margar mínútur þar til hann var dauður og eflaust étinn af félögum sínum, því að mávur spyr ekki hvers kyns kjötið er sem er á boðstólum. Mér dettur oft þessi saga í hug því að mannfólkið hagar sér ekki ólíkt þessu, þótt fínlegra sé farið í hlutina. Einn öðruvísi gefur tilefni til að ráðast á með orðum eða gjörðum.
En eins og áður sagði verpir mávurinn ekki í móana fyrir neðan Miðtún og Norðurtún og hann er reyndar ekki mikið þar á ferli yfir sumartímann. En þarna verpir fjöldi annarra fugla. Þeir fá þó ekki alltaf að vera í friði því að litlum kisum finnst fátt skemmtilegra en að leika sér með unga, láta hann hlaupa, slá hann niður, skoða hann, bíta pínulítið í hann og svo dálítið meira... Það er að sjálfsögðu eðli allra katta að veiða sér til matar og heimiliskettir missa ekki eðlið þótt þeir séu ekki svangir. Kettir ná þó yfirleitt ekki að veiða fullfríska fugla því að náttúran sér til þess að veiðidýr veiði aðeins þá sem eru orðnir gamlir eða veikir eða of ungir til að hafa burði til að koma sér undan. Þess vegna þyrftu kisu-eigendur að reyna að halda kisunum sínum inni rétt á meðan ungarnir eru að verða fleygir. Það er ekki langur tími. Auðvitað getur það reynst erfitt að halda snöggum kisum inni þegar heimurinn úti er fullur af ævintýrum, en það þarf samt að reyna það. Það er lítið gagn að segja bjöllu um hálsinn á kisunni, því að bjallan hjálpar ekki litum ungum til að fljúga burt þegar hættan  nálgast.

 HV

Fengið af vef Sandgerðisbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024