Engin samkeppni um útfarir
– Perla Svandís Hilmarsdóttir skrifar
Það er alltaf erfitt fyrir fjölskyldur og vini þegar fráfall verður, hvort sem það hafi aðdraganda eður ei. Við taka endalausar hugsanir, margar spurningar með engin svör og sorgarferli sem kemur niður á huga og líkama þeirra sem eftir sitja. Einnig tekur við erfitt ferli sem framundan er, en það er kistulagning, jarðarför og erfidrykkja. Í sorginni verður hugurinn lamaður. Maður líður áfram þessa erfiðu daga í einhverju tímaleysi. Þar sem hugurinn er á öðrum stað þá hugsar maður ekki um kostnað sem fylgir því að jarðsetja þann sem fallinn er frá.
Stórt var skarðið fyrir fjölskylduna og Garðinn þegar Þorsteinn Jóhannsson, eigandi Dúddanna, féll frá þann 5. Febrúar síðastliðinn. Það væri hægt að fylla heilt Víkurfréttablað um ævi Steina, hans áhugamál og ævintýr, enda sást það vel þegar jarðarför hans var og erfidrykkja hversu mikils metin hann var í þessu litla samfélagi sem Garður er.
Það er sagt að samkeppni komi af hinu góða fyrir almenna borgarann. Það þarf samkeppni í öllum stigum samfélagsins, alveg sama hvað það er. Á Reykjanesinu ríkir engin samkeppni þegar útfarir eiga í hlut. Samkvæmt Wikipedia búa 14.231 manns á þessu svæði og segja má að það sé frekar stórt svæði fyrir eina útfararstofu.
Þegar hugað var að kistulagningu og jarðarför Steina þá var tekin sú ákvörðun að leita annað og fékk ég það verkefni að finna þá þjónustu fyrir hönd eiginkonu Steina. Kom það í hlut Útfararþjónustustu Hafnarfjarðar að taka þetta verk að sér. Vel var tekið á móti mér þegar ég kom til þeirra. Eigandi stofunnar, Hálfdán, fræddi mig um allt ferlið sem fer í gang þegar andlát verður, alla pappírsvinnuna sem fylgir því og hvað þurfi að huga að til að gera þessa stund eins fallega og hægt er.
Einnig fekk ég smá innsýn inn í þeirra vinnu, það er hvað þeir gera til að gera þessa athöfn sérstaka fyrir þann sem fallinn er frá og fjölskylduna. Eg sá það í kistulagningu Steina hversu vel þeir gerðu sitt verk og í jarðarförinni sá ég það enn betur hversu einstakir þessir menn voru, Hálfdán og Ragnar.
Sonurinn þeirra Ingu og Steina átti frekar erfitt með að sitja þessa jarðarför. Fékk hann því á meðan jarðarförin fór fram að vera undir þeirra verndarvæng. Hann fékk einnig að sitja í bílnum síðasta spölinn með föður sínum að gröfinni sem skipti hann miklu máli. Það sýndi mér því enn betur að ég hefði valið vel þegar ég tók það að mér að velja góða útfararþjónustu.
Svo þegar kom að greiðslu þá kom staðfestingin á því hversu vel ég sá að samkeppni er eitthvað sem þörf er á hér á Suðurnesjum. Þessi útfararþjónusta tók það að sér að sækja látinn mann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, klæða hann og aka að Útskálakirkju. Ég held að ferðirnar þeirra hafi slagað upp í 4-5 skipti frá Hafnarfirði. Þrátt fyrir það var þeirra verð mun lægra en stofunnar hér á Suðurnesjum. Þótti mér það sýna hversu mikil þörf er á því að láta aðra vita að þegar andlát ber að höndum þá sé fólki það frjálst að leita út fyrir sitt samfélag.
Þegar tengdafaðir minn dó þá varð ég hvumsa yfir hversu dýrt það er að jarðsetja. Eg var lengi hneyksluð yfir að útfararstjórinn sem sá um þá jarðarför hafi ekki látið vita að það væri hægt að lækka kostnaðinn með ýmsum leiðum, heldur trekkti hann verðið upp og lét ekkert undan þegar greiðsluseðillinn datt inn um lúguna.
Með þakklæti til ykkar allra sem áttuð í hlut þá gleymist aðstoð ykkar aldrei. Hálfdán og Ragnar, þið eruð einstakir. Takk fyrir frábæra þjónustu. Þó svo það hljómi kaldhæðnislega þá mun ég leita til ykkar aftur ef ég þarf að standa í sömu sporum aftur.
Kær kveðja,
Perla Svandís Hilmarsdóttir