Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Engar sjónhverfingar í Sandgerði
    Sandgerði. Loftmynd: Hilmar Bragi Bárðarson
  • Engar sjónhverfingar í Sandgerði
    Sigursveinn Bjarni Jónsson
Föstudagur 28. mars 2014 kl. 08:06

Engar sjónhverfingar í Sandgerði

– Góð samstaða skilar árangri

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa allir bæjarfulltrúar Sandgerðisbæjar átt gott samstarf um fjárhagslega endurskipulagningu og fjárhagsáætlanagerð bæjarins. Einhugur hefur ríkt í bæjarstjórninni um að koma fjármálum Sandgerðisbæjar á réttan kjöl og ber að þakka góða samstöðu.

Á kjörtímabilinu var ekki hjá því komist að hækka tímabundið álögur á bæjarbúa vegna hinnar erfiðu fjárhagsstöðu sem bæjarstjórn hefur þurft að takast á við. Bæjarbúar eiga hrós skilið fyrir að hafa sýnt skilning sinn á ástandinu og borið auknar byrðar þegar á reyndi.

Starfsmenn Sandgerðisbæjar hafa staðið sig mjög vel við þessar erfiðu aðstæður og tekið virkan þátt í nauðsynlegum aðgerðum  þegar skera þurfti niður fjárveitingar til flestra málaflokka.

Fjárhagsleg endurskipulagning bæjarsjóðs hefur gengið mun betur en á horfðist og meðal annars hefur Framtíðarsjóður bæjarins verið nýttur til að kaupa til baka eignir af Eignarhaldsfélaginu Fasteign og greiða upp lán sem báru háa vexti.

Hvers vegna þurfti Sandgerðisbær á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda?
Skoðum staðreyndir úr ársreikningum bæjarins:

2008:    A- hluti      -21%     eða  -207 mkr. (tap)
2009:    A-hluti     - 21%    eða  -220 mkr.  (tap)
2010:    A hluti  - 19%  eða  -196 mkr. (tap)
2011:    A hluti 8,5%  eða 99 mkr. (hagnaður)
2012:    A hluti 21,3%  eða 293 mkr. (hagnaður)
2013     Bráðabirgðaniðurstöður ársreiknings eru í takt við væntingar.

Framlegð í ársreikningi  veitir niðurstöðu um mun á  rekstrartekjum og rekstrargjöldum og sýnir  hve mikið fé er eftir á hverju ári til þess að greiða niður skuldir og/eða veita fjármagni í  framkvæmdir. Ef litið er yfir 6 ára tímabil má sjá að framlegð í ársreikningi Sandgerðisbæjar hefur snúist frá því að vera neikvæð í mjög viðunandi jákvæða stöðu.

Skuldahlutfall Sandgerðisbæjar í ársbyrjun 2010 var 410%. Viðmið sem ríkið setur sveitarfélögum um skuldahlutfall er 150%. Góður árangur hefur náðst við að lækka skuldahlutfallið og mun Sandgerðisbær ná 150% markinu innan fárra ára með áframhaldandi skynsamlegri fjármálastjórnun.

Nú liggur sú staðreynd fyrir að gott jafnvægi og góður árangur hefur náðst í rekstri bæjarins. Því má þakka samstilltu átaki bæjarstjórnar, starfsmanna og bæjarbúa.
Á komandi kjörtímabili mun gefast meira svigrúm til framkvæmda en á því kjörtímabili sem nú er að líða og ef tilvonandi bæjarfulltrúum ber gæfa til að halda áfram á þeirri braut sem hefur nú verið mörkuð mun, þegar fram í sækir, gefast tækifæri til að lækka álögur á íbúa Sandgerðisbæjar enn frekar.

Ég hef tekið ákvörðun og er klár í slaginn og tel mig hafa ýmislegt fram að færa til að tryggja velferð Sandgerðisbæjar, íbúum til heilla. Ég óska eftir stuðningi þínum í 2. sæti í prófkjöri S-listans í Sandgerðisbæ þann 5. apríl.

Sigursveinn Bjarni Jónsson,
Bæjarfulltrúi og sölustjóri hjá Iceland Seafood ehf.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024