Engar breytingar fyrirhugaðar í FLE

Samtökin hafa látið vel í sér heyra að undanförnu og mátti skilja á málflutningi þeirra að fjármálaráðherra hygðist breyta reglugerð þannig að vöruúrval yrði skorið verulega niður. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessum málflutningi enda skapar hann mikla óvissu um framtíð FLE. Nú er verið að fjárfesta þar fyrir um fimm milljarða króna. Reiknað er með stöðugri fjölgun starfa. Allt byggir þetta á þeirri forsendu að FLE hafi þær tekjur sem reiknað hefur verið með af m.a. komuverslun.
Ef breyta á þeim forsendum eru öll mál í uppnámi. Ekki bara tekjur FLE heldur einnig störf fólks sem þar vinnur. Við viljum að sjálfsögðu ekki sjá störfum fækka á svæðinu og því mikilvægt að eyða allri óvissu strax. Þess vegna tók ég málið upp í byrjun þingfundar í dag og krafði ráðherra svara um það hvort til stæði að breyta forsendum fyrir komuverslun.
Ástæða er til að gleðjast yfir svörum ráðherra: Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstrinum. Við getum því andað rólega og glaðst yfir þeirri glæsilegu uppbyggingu sem nú á sér stað innan FLE og fjölgun starfa sem af myndarlegum rekstri leiðir. Komuverslunin er ekki í samkeppni við íslenskar verslanir heldur hinar erlendu. Okkar fólk í FLE stendur sig frábærlega. Gefum því frið til að byggja áfram upp atvinnulíf á Suðurnesjum.
Hjálmar Árnason,
alþingismaður.