Engar breytingar á starfi upplýsinga- og skjalafulltrúa Grindavíkurbæjar
Vegna fréttar vf.is í á fimmtudag vilja undirrituð koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri. Færsla Siggeirs Ævarssonar sem vísað var til í fréttinni var skrifuð 3. september. Umræða um málefni flóttamanna fór fram í bæjarstjórn 29. september. Það er því ekki rétt að færslan hafi komið í kjölfar fundarins, heldur var hún sett fram 26 dögum fyrr. Forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri ræddu færsluna á fundi 6. október og var ákveðið að bæjarstjóri myndi ræða við Siggeir. Í fréttinni var því haldið fram að formaður bæjarráðs og bæjarstjóri hefðu samþykkt að útiloka Siggeir frá fundum með forseta bæjarstjórnar. Það er ekki rétt. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á hans starfi. Bæjarstjóri ræddi málið við hann 7. október og mun hann sinna störfum sínum fyrir Grindavíkurbæ á sama hátt og áður.
Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar