Ellert, það er starfsdagur á leikskólunum á Hornafirði í dag
- Opið bréf til Ellert Eiríkssonar formanns stjórnar FMS.
Í ræðu Pétur Blöndal alþingismanns og flokksbróður okkar um frumvarp Ögmundar Jónassonar um gjaldfrían leikskóla sagði hann orð rétt “ Með samkeppni milli leikskóla mundi t.d. detta niður hið furðulega fyrirbæri sem rústar reglulega heimilum í landinu, þ.e. starfsdagar og foreldraviðtöl. Menn leyfa sér að loka þessum þjónustustofnunum sem veldur mikilli óreiðu og krefst mikillar skipulagningar hjá barnmörgum fjölskyldum.” Mig langar til að rifja upp einn starfsdag á leikskólunum hér á Höfn á haust dögum 2002.
Það var starfsdagur á báðum leikskólunum hér á Höfn. Ég á tvær yndislegar dætur sem eru á sitthvorum leikskólanum. Þennan dag var líka starfsdagur í skólanum þar sem konan mín kennir og notuðu austfirskir kennarar þennan dag til að hittast á Breiðdalsvík og bera saman bækur sínar. Þannig að ég var einn með dætur mínar 2ja og 4ra ára frá fimmtudags kvöldi til jafnlengdar á föstudegi. Það var nokkuð mikið að gera á fiskmarkaðnum á Hornafirði en ég hugðist taka dætur mínar með mér í vinnuna á föstudeginum. Á fimmtudagskveldi eftir að ég var búinn að svæfa dætur mínar fór ég í tölvukerfi FMS sem ég hafði aðgang að úr heimilistölvunni til að yfirfara sölutölur vikunnar sem var að líða. Sá ég þá að framkvæmdastjóri FMS Ragnar Kristjánsson var ekki búinn að gera lagfæringu sem hann átti að gera en ég gat ekki framkvæmt þar sem ég hafði ekki tölvuaðgengi. Ég hafði enga ástæðu til að ætla að Ragnar myndi gleyma þessu en taldi öruggara að send fax á höfuðstöðvar FMS Grindavík til að minna hann á að framkvæma þessa lagfæringu. Ástæðan fyrir að ég sendi fax en hringdi ekki var að ég var að vinna þessa vinnu á fimmmtudagskvöldi í stað föstudags morguns, því að ég vissi að sá morgun yrði erilsamur við að gefa dætrum mínum að borða, klæða þær og koma okkur í vinnu.
Ég var kominn á fiskmarkaðinn hér á Höfn kl ca 10:00 á föstudagsmorgni. Um kl 11:00 hringir Ragnar í mig stjórnlaus af reiði. Þá hafði hann gleymt að gera það sem hann átti að gera og enginn mætt á aðalskrifstofur FMS í Grindavík og séð faxið frá mér. Sá orðaflaumur sem þessi maður viðhafði er að mestu ekki prenthæfur. Eitt af því sem hann öskraði á mig í símanum var að ég hefði brotið trúnað, ég hefði átt að hringja ég mætti vita að hann væri oft á fundum, þetta hafi ég gert til að koma honum illa. Þegar ég ætlaði að segja honum frá aðstæðum mínum hér á Höfn að leikskóli barna minna væri lokaður og... þá öskraði hann á mig í símann “já það þyrfti að endurskoða fjarvistir þínar vegna barna þinna” og skellti á mig símanum. Ég sat sem lamaður í stólnum. Þarna var framkvæmdastjórinn búinn að ásaka mig um að svíkjast undan vinnuskyldum og ég notaði til þess börnin mín. Ég hélt að framkvæmdastjórinn myndi jafna sig á þessu og myndi biðja mig afsökunar, en það var ekki. Tveimur dögum síðar fæ ég bréf frá Ragnari þar sem ég er rekinn og er ástæðan sögð samstarfserfiðleikar við framkvæmdastjóra og trúnaðarbrot. Aðeins 2-3 vikum fyrir þennan atburð spurði ég Ragnar hvort að það væri vilji hans að ég færi frá fyrirtækinu. Ástæðan fyrir spurningu minni var að mér fannst ég finndi fyrir óvild í minn garð ég kunni ekki þá mannasiði sem hann notaði. Orðrétt var svar hans “nei þvert á móti, ég vil hafa þig”
Þær mestu víddir sem ég hef kynnst í lífinu er það stórkostlega að fá að eignast tvær dætur eftir að vera kominn á miðjan aldur, í hina áttina er það, þegar öskrað var á mig í símann að það þyrfti að endurskoða fjarvistir mínar vegna barna minna, skellt á mig símann og ég síðan rekinn. Ég veit að þú hefur kynnst annarri víddinni en vona að þú kynnist aldrei hinni. Í tíu ár af starfsævinni vann ég fyrir og með FMS. Í tíu ár treysti ég ykkur. Það traust launuðu þið á þennan hátt. Af öllu undir sólinni þurftuð þið að nota börnin mín. Þú bauðst mér að koma á stjórnarfund og ræða við stjórnina. Ég trúði ekki að þú og þeir menn sem þar voru gætu skrifað undir þá tegund af mannasiðum sem viðhafðir voru. Svo bregðast krosstré sem önnur. Það sem var í mínum huga að samræma það að eiga tvö lítil börn og að sinna vinnunni, var í ykkar hug einhver ásetningur minn að koma framkvæmdastjóra illa. Hálfur sá fáránleiki væri nógur. Þú þurftir ekki að spyrja einna spurninga Ellert á þessum fundi, þetta lá greinilega ljóst fyrir þér.
Ég mátti segja upp sjálfur ef mér tækist að semja um starfslok við framkvæmdastjórann samkvæmt umboði þínu. Það var svo greinileg að þegar framkvæmdarstjórinn með aðstoðarmann sinn kom hingað austur á Hornafjörð að þar fóru menn með fullt umboð stjórnar í farteskinu. Auk þess sáu þeir ástæðu til að minna mig á það sérstaklega. Hér skal ekki rakinn í smáatriðum sá dónaskapur og lítilsvirðing sem þessir menn sýndu mér í ferð þeirra hingað á Höfn. En aðeins sýnt hér lítið sýnishorn.
Ein af spurningum mínum til þessara drengja var að sjálfsögðu „hvaða trúnað braut ég?“ Svar Ragnars var „ég svara ekki þessari spurningu“. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins spurði ég þig Ellert þessara sömu spurningar og svar þitt var „það veit ég ekki, það var bara eitthvað á milli ykkar“. Framkvæmdastjórinn var búinn að útbúa starfslokasamning. Ég benti á að það vantað 10-15 daga orlof inn í samninginn. Ef þú skrifar ekki undir þetta þá stendur einfaldlega bréfið sem ég sendi (þar sem ástæðan fyrir uppsögn er trúnaðarbrot). Ég skrifaði undir til að þurfa ekki að hafa það í starfsferilskrá að hafa verið rekinn fyrir að brjóta trúnað. Það var smámál að kyngja því þó að þið hefðuð af mér einhverjar krónur í launum á móti því hvernig þið tröðkuðu á starfsheiðri mínum og sýnduð ekki bara mér heldur fjölskyldu minni lítilsvirðingu og dónaskap.Á heimasíðu ÚA því góða félagi má lesa hver er starfsmannastefna þess fyrirtækis. Þar má m.a lesa markmið fyrirtækisins sem er „að veita starfsfólki stuðning til að samræma kröfur fyrirtækisins jafnframt við ábyrg fjölskylduhlutverk hvers og eins“ Oftar en einu sinni minntu þeir stjórnendur FMS mig á að það væri bara hans (framkvæmdastjórans) að ráða og reka. Þetta væri ekkert flóknara. Á vef FMS eru leiðbeiningar hvernig maður getur nálgast upplýsingar um fótboltafélagið Liverpool í samnefndri borg í Englandi, ekki einn stafur um starfsmannastefnu eða starfsmannamál. Það hefur verið ólýsanlegur sársauki að kynnast ykkar starfsmannastefnu. Af fenginni reynslu fullyrði ég að menn geta skaðast varanlega á vinnubrögðum eins og ykkar.
Ellert, í dag, 9.feb., er starfsdagur á leikskólunum á Höfn.
Egill Jón Kristjánsson,
fyrrverandi útibústjóri FMS á Höfn