Ekki sjálfsagt
- Aðsend grein frá Jónu Sólveigu Elínardóttur
Ég er lent, búin að ná úr mér flugþreytunni og vakna núna á hverjum morgni og hugsa til allra ykkar sem ákváðuð að trúa á breytingar og voruð tilbúin að treysta okkur hjá Viðreisn til að leiða þær. Það er ekki sjálfsagt. Ekki gefið. Það á enginn neitt í stjórnmálum, frekar en í lífinu sjálfu. Það þarf að berjast fyrir breytingum en sú trú og það traust sem mér og okkur hefur verið sýnt veitir mér þann kraft og þá orku sem til þarf til að ganga til leiks tilbúin til að berjast fyrir þeim málefnum sem Viðreisn stendur fyrir. Þessi kosningasigur sem við unnum í Suðurkjördæmi, að ná inn kjördæmakjörnum þingmanni í fyrstu kosningunum okkar, er ótrúlegur. Ég er þakklát fyrir alla hjálpina, stuðninginn, óskirnar og síðast en ekki síst fyrir alla hvatninguna og ég hlakka til að vinna með ykkur öllum inn í kjörtímabilið.
Nú taka spennandi tímar við. Að berjast fyrir málefnunum. Og það mun ég gera af heilum hug. Ég hef trú á því að við getum unnið að og komið í gegn ótrúlega mikilvægum umbótamálum á komandi kjörtímabili, sér í lagi í tengslum við gjaldmiðla- og þar með vaxtamál. Þá er einnig gríðarmikilvægt að ná fram langþráðri sátt í tengslum við gjaldtöku í sjávarútvegi sem og um betrumbætur á landbúnaðarkerfinu okkar. Þetta eru stóru samfélagsmálin og ég hlakka til að vinna að þeim á kjörtímabilinu. Ég vil hvetja ykkur til að láta í ykkur heyra og hafa samband til að vekja athygli á málum sem taka þyrfti til umræðu á vettvangi stjórnmálanna.
Sveitarstjórnarkosningar eru eftir tvö ár. Það eru mörg stór og spennandi málefni sem vinna þarf að á sveitarstjórnarstiginu þar sem frjálslynd sjónarmið þurfa að eiga rödd. Ég vil því hvetja öll þau ykkar sem viljið láta að ykkur kveða í sveitarstjórnarmálum í nafni flokksins til að hafa samband við okkur hjá Viðreisn.
Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður og varaformaður Viðreisnar