„Ekki rígbundin á klafa þúfupólitíkur“
Framsóknarkonan Eygló Harðardóttir, sem lenti í 4. sæti prófkjörs Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir rúmri viku mun, eins og áður hefur komið fram hér á vf.is, taka fjórða sætið á listanum. Það gerir hún þó henni þyki óeðlilegt að Helga Sigrún Harðardóttir, sem ekki tók þátt í prófkjörinu, hafi verið tekin inn í stað Hjálmars Árnasonar, sem gaf eftir það sæti.
Tvær tillögur voru bornar fram fyrir kjördæmisþing Framsóknar á laugardag, önnur var frá kjörstjórn þar sem Helga Sigrún var í 3. sæti, og hin kvað á um að listinn yrði færður upp, þ.e. að Eygló fengi 3. sætið.
Tillagan um að listinn yrði færður upp var felld með 59 atkvæðum gegn 49 og var svo tillaga kjörstjórnar samþykkt.
Í pistli á heimasíðu sinni: http://eyglohardar.blog.is veltir Eygló upp þeirri staðreynd að atkvæðin 59 á þinginu skildu vega þyngra en hin rúmlega 2100 atkvæði sem hún hlaut í prófkjörinu. Hún segir á heimasíðunni:
Ég hef talað mikið í þessari viku um mikilvægi þess að virða leikreglur lýðræðisins, hvort sem um er að ræða kosningar til Alþingis, sveitarstjórnar eða prófkjörs. Því skal það aldrei sagt að ég virði ekki leikreglur lýðræðisins. Ég tel mikilvægt að ofarlega á listanum sé manneskja sem líti á sig sem fulltrúa alls kjördæmisins og er ekki rígbundin á klafa þúfupólítíkur.
Ég mun því hlusta á raddir þeirra sem kusu mig og vildu sjá mig á lista Framsóknarmanna fyrir kosningar í vor.
Framboðslisti Framsóknar er eftirfarandi:
1 Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, 57 ára, Árborg
2 Bjarni Harðarson, bóksali, 45 ára, Árborg
3 Helga Sigrún Harðardóttir, skrifstofustjóri, 37 ára, Reykjanesbæ
4 Eygló Harðardóttir, framkvæmdastjóri, 34 ára, Vestmannaeyjum
5 Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri, 40 ára, Árborg
6 Lilja Hrund Harðardóttir, búfræðingur, 34 ára, Hornafirði
7 Brynja Lind Sævarsdóttir, flugöryggismaður, 31 árs, Reykjanesbæ
8 Kjartan Lárusson, sauðfjárbóndi og nemi, 51 árs, Bláskógabyggð
9 Gissur Jónsson, grunnskólakennari, 30 ára, Árborg
10 Bryndís Gunnlaugsdóttir, laganemi, 26 ára, Grindavík
11 Ólafur Elvar Júlíusson, byggingatæknifræðingur, 48 ára, Rangárþingi ytra
12 Agnes Ásta Woodhead, þjónustufulltrúi, 32 ára, Garði
13 Guðni Sighvatsson, nemi í íþróttafræðum, 26 ára, Rangárþingi ytra
14 Agnes Lára Magnúsdóttir, söluráðgjafi, 40 ára, Reykjanesbæ
15 Lára Skæringsdóttir, hárgreiðslumeistari, 37 ára, Vestmannaeyjum
16 Ásta Berghildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri, 43 ára, Ásahrepp
17 Anna Björg Níelsdóttir, skrifstofumaður, 38 ára, Ölfusi
18 Auður Jóna Sigurðardóttir, bóndi, 48 ára, Rangárþingi Eystra
19 Elín Einarsdóttir, kennari/sveitarstjórnarmaður, 40 ára, Mýrdalshreppi
20 Hjálmar Árnason, alþingismaður, 56 ára, Reykjanesbæ.