Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ekki kemur til greina að einkavæða Keflavíkurflugvöll né Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.
Föstudagur 7. apríl 2006 kl. 22:34

Ekki kemur til greina að einkavæða Keflavíkurflugvöll né Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

Ályktun frá A-listanum í Reykjanesbæ 7. apríl 2006:
„Keflavíkurflugvöllur er ein af meginstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum. Því eru hugmyndir um einkavæðingu flugvallarins mjög varhugaverðar, sérstaklega í ljósi þess atvinnuástands sem nú skapast við brotthvarf varnarliðsins en Keflavíkurflugvöllur er eini eiginlegi alþjóðaflugvöllurinn á Íslandi og því í einokunarstöðu. Flugvöllurinn og öll nauðsynleg mannvirki í kringum hann eiga að vera í eigu og á forræði þjóðarinnar.

Í áraraðir hefur Varnarliðið staðið straum af stærstum hluta kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar. Í ljósi breytts hlutverks varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og yfirtöku Íslendinga á rekstri flugvallarins liggur það fyrir að breytingar munu verða hér á. Í því breytingarferli sem er framundan er afar brýnt að samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sé tryggð í samkeppni við aðra alþjóðaflugvelli og aðra áfangastaði ferðamanna. Afar mikilvægt er að flugvallargjöld- og skattar séu sem lægst fyrir flugfarþega til að hægt sé að halda verði flugfarmiða sem allra lægst. Ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hefur því afar mikilla hagsmuna að gæta í þessu sambandi. En hafa ber í huga að það er dýrt að fljúga til Íslands frá nánast öllum löndum vegna fjarlægðar.

Leggja verður þunga áherslu á að allar tekjur, í hvaða formi sem er, af rekstri flugvallarins og flugstöðvarinnar fari í uppbyggingu starfseminnar á Keflavíkurflugvelli. Öðruvísi er ekki hægt að vera með samkeppnishæf verð og gæði þjónustunnar verða lakari. Það skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna að eini eiginlegi millilandaflugvöllur landsins sé samkeppnishæfur við aðra millilandaflugvelli hvað varðar þjónustu, gæði og verð.

Einnig þarf að tryggja slíku félagi sveigjanleika í verðlagningu á þjónustu og gjaldtöku fyrir nýtingu flugvallarins. Endurskoða þarf því lög um loftferðir og heimila slíku félagi sveigjanlegri verðlagningu í þeim tilgangi að nýta betur Keflavíkurflugvöll sem áfangastað fyrir flugfélög og fjölga þannig ferðamönnum til Íslands og fjölga þar með atvinnutækifærum í ferðaþjónustu og við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024