Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ekki humma fram af þér heilsuna
Þriðjudagur 28. mars 2023 kl. 12:52

Ekki humma fram af þér heilsuna

Í tilefni af Mottumars býður lýðheilsuráð Reykjanesbæjar frítt í sund þann 30.mars 2023 í Vatnaveröld. Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá körlum. Lýðheilsuráð vill leggja málefninu lið með viðburðinum og vekja þannig athygli á mikivægi þess. Ráðið mun hræra í vöfflur og selja til styrktar Mottumars klukkan 16:00-18:30, einnig verða Mottumars sokkarnir til sölu.
Ráðgjafi frá Krabbameinsfélaginu verður á staðnum með ýmiskonar fræðslu og leiðbeiningar fyrir gesti. Einnig munum við fá íbúa Reykjanesbæjar til að koma og segja frá sinni reynslu um baráttu við krabbamein. Valdimar mun spila ljúfa tóna ásamt góðum gesti klukkan 17:30.
Á heimasíðu Mottumars kemur fram að þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt frá árunum 2017 – 2021 greindust 892 karlmenn árlega á Íslandi með krabbamein og á sama tímabili létust 317 karlmenn árlega úr krabbameini.
Nýleg rannsókn Krabbameinsfélagsins leiddi í ljós að almennt leituðu karlar seinna til læknis en konur. Hátt í helmingur karla sem síðar greindust með krabbamein biðu í þrjá mánuði eða lengur með að fara í skimun. Alls 14% karlmanna biðu í meira en ár frá því að einkenna varð vart og þar til þeir leituðu læknis. Nauðsynlegt er að taka höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá karlmönnum og um leið afla fjár fyrir mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélagsins.
Lýðheilsuráð hvetur íbúa Reykjanesbæjar að koma í sund með okkur, hugsa um heilsuna og fræðast um krabbamein.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024