Segir dýpkunframkvæmdir í Helguvík hafa verið óþarfar
Milljónaframkvæmdir við dýpkun Helguvíkurhafar voru óþarfar þar sem engir samningar um hafnarframkvæmdir kveða á um að nauðsynlegt hafi verið að dýpka höfnina áður en rekstur álvers hæfist. Þetta fullyrðir Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, í bókun sem hann lagði fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ núna í vikunni. Í henni kemur fram hörð gagnrýni á meirihlutann, sem vísar henni til föðurhúsanna.
Málefni Reykjaneshafnar hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu en fjárhagsstaða hennar er afar slæm. Ráðist hefur verið í umtalsverðar framkvæmdir í Helguvíkurhöfn vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík en dýpka þarf höfnina og byggja viðlegukant vegna skipaflutninga í tengslum við álverið. Bæjaryfirvöld reyna nú að ná samningum við lánveitendur en heildarskuldir hafnarinnar nema um 5,6 milljörðum króna. Um 130 milljóna króna afborgun af lánum sem Reykjaneshöfn fékk hjá nokkrum lífeyrissjóðum hefur verið í vanskilum frá 1. maí.
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, gagnrýnir meirihlutann harðlega í áðurnefndri bókun sem er svohljóðandi:
„Vegna alvarlegrar fjárhagstöðu Reykjaneshafnar vekur Framsókn í Reykjanesbæ athygli á að fara verður í endurskoðun allra verkferla og ákvarðanatöku vegna verkefna hafnarinnar. Höfnin er á leið í greiðsluþrot og er að reyna að ná nauðarsamningum við lánadrottna sína. Reykjaneshöfn hefur ekki tekist að standa við fjárhagslegar skuldbindingar á þessu ári allt frá 1. maí 2010. Upplýsingar vegna greiðsluvanda hafnarinnar hefur verið mjög takmörkuð, gagnvart núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum í Atvinnu- og hafnaráði. Það er ámælisvert.
Framsókn í Reykjanesbæ telur nauðsynlegt að skoða hvort ekki hefði mátt grípa fyrr inn í rekstur hafnarinnar, til að lágmarka skaða Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar. Í raun var dýpkun Helguvíkurhafnar óþörf þar sem engir samningar um hafnarframkvæmdir kveða á um að nauðsynlegt hafi verið að dýpka höfnina áður en að rekstur álvers hefst. Samkvæmt umræðu sem fór fram í Atvinnu- og hafnaráði á síðasta kjörtímabili mun það vera stefna Norðuráls að keyra hráefni frá Grundartanga til Helguvíkur, þangað til 3. áfangi álversins er tilbúinn.
Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst, að óraunhæfar væntingar og meingölluð áætlanagerð, hefur keyrt hafnarsjóð í þrot. Sá gjörningur er alfarið á ábyrgð meirihluta bæjarstjórnar. Í ljósi alls þessa þykir Framsókn í Reykjanesbæ skynsamlegt að öllum frekari verkefnum við Helguvíkurhöfn verði slegið á frest, þar til rekstur álvers hefst og rekstrargrunnur Reykjaneshafna er tryggður“.
Talverð umræða varð í kjölfar bókunarinar, m.a. gagnrýndi Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, orðnotkun Kristins þar sem hann talar um nauðasamninga í bókuninni. Böðvar sagði það alls ekki við hæfi að tala um nauðasamninga enda ekki um gjaldþrotameðferð að ræða.
„Í tilefni af bókun Kristins Þ. Jakobssonar er nauðsynlegt að benda á að allar ákvarðanir um uppbyggingu í Helguvík hafa verið samþykktar í bæjarráði og bæjarstjórn bæði af meirihluta og minnihluta, þ.á.m. fulltrúa Framsóknarflokksins. Dylgjum og rangfærslum um annað er því vísað til föðurhúsanna,“ segir í bókun sem Sjálfstæðismenn lögðu fram.