Ekki á minni vakt
Það hafa gengið boð út frá fjármálaráðuneytinu um niðurskurð uppá 10% í gegnum kerfið. Það er gott og gilt. Við stöndum frammi fyrir erfiðustu tíð sem núlifandi Íslendingar hafa horfst í augu við og eðlileg og réttmæt viðbrögð að reyna að gera það sem hægt er í að skera niður og hagræða.
Síendurtekinn niðurskurður á Heilbrigðisstofnunum Suðurlands og Suðurnesja er fólki á svæðinu mikið áhyggjuefni og veldur ókyrrð í þessum samfélögum. Það hefur verið gengið hart að þessum stofnunum með niðurskurðarhnífinn. En á sama tíma hefur fólksfjöldi á þessum svæðum sem þau þjónusta aukist í tugum prósenta. Fáir gera sér til dæmis grein fyrir því að á sumrin og nú jafnvel um vetur líka, þjónustar Sjúkrahúsið á Suðurlandi þúsundum sumarhúsaeigenda sem dvelja í frístundabyggðum víða um svæðið.
Að mínu mati er hægt að ganga á ýmislegt en þegar farið er að loka á grunnþjónustu eins og fæðingar, skurðlækningar og almenna lækniþjónustu þá getum við allt eins hætt að kallað okkur þjóðfélag. Löggæsla, sjúkraflutningar og önnur grunn samfélagsleg skilda verður að vera til staðar óskert. Við getum ekki leift okkur að fara niður á þriðja heims grunnþjónustu stig og hætta að fylgja almennum leikreglum þó svo að fallna bankakerfið hafi leyft sér það.
Í dag þegar þetta er ritað eru blöðin að fjalla um athafnamenn sem skoða aðstöðu á Heilbrigðisstofnunum okkar á Suðurnesjum og Suðurlandi með það í huga að leigja aðstoðuna. Tækin mörg hver sem talað er um að leigja út eru nú bara ekki ríkisins að leigja út. Mörg stærstu, dýrustu og tæknilegustu tækin hafa verið gefin af líknarfélögum og góðgerðarsamtökum. Ég er handviss um að gjafirnar voru ekki ætlar í þann tilgang.
Það er algjörlega út takti við allt að vera ía að einkavæðingu eða hálf einkavæðingu skurðstofa og annar sérhæfingar innan sjúkrakerfisins okkar núna rétt ofan í hrun bankanna. Ég er alveg til í að taka þátt í einhverskonar hugmyndafræði vinnu að slíku þegar þjóðin hefur náð sér eftir þetta reiðaslag sem gengið hefur yfir hana en alls ekki á þessu stigi málins.
Fólkið sem treystir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Suðurlands telja tugi þúsunda. Þetta fólk hefur eins og aðrir Íslendingar þurft að taka á sig á leifturhraða gríðarlega skerðingu kjara í kjölfara glannaskaps í bankakerfinu. Þetta góða fólk er núna hrædd, ringlað og rúið trausti á samfélagið. Það er að því að æra óstöðugan að ætla síðan að ræna það sjúkrateppinu sínu sem það veit eða vissi öllu heldur að það gat þó alltaf treyst á.
Við hljótum að verða að skoða launasamsetningu stofnanna og þá aðalega laun hæst launuðustu aðilanna áður en við förum að loka fæðingadeildum og skurðstofum. Það höfum við þingmenn og ráðherrar gert með eigin laun með bréfi til kjaranefndar.
Íbúar hér eru oft afskrifaðir með þeim hætti að þeir séu nógu nálægt Reykjavík. Þar er bara ekki réttlætanlegt. Tugir þúsunda treysta á Heilbrigðisstofnanirnar á Suðurlandi og Suðurnesjum. Þessar stofnanir hafa verið tækjaðar upp af hinu opinbera og velunnurum og mega ekki enda eins og matvöruverslanir í Rússlandi á seinni hluta síðustu aldar, tómar.
Síðan verða menn að spyrja sig hver raun sparnaður sé þegar skurðstofum og fæðingardeildum er lokað og það yfir há vetur. Kostnaðurinn af miklu leyti færist á sjúklinginn og hans nánustu sem nú þurfa að taka á sig óþarfa ferðalag. Síðan er sparnaðurinn náttúrulega enginn þegar aðgerðir og fæðingar færast yfir á aðrar heilbrigðisstofnanir og líklegar en ekki í Reykjavík. Það er í raun frekar réttlætanlegt að snúa blaðinu alveg við og skera niður í Reykjavík og flytja verkefni til Suðurnesja og Suðurlands þar sem aðgerðir geta verið mun hagkvæmari.
Við lifum við hátt skattastig á Íslandi og ein réttlætingin er okkar er sterk samfélagslegt grunnþjónustu net. Við skulum halda því. Komi til stórlækkaðs skattþreps fyrir okkur þá má skoða niðurskurð þjónustu en ekki öfugt.
Það kemur ekki til greina á minni vakt að skera niður í grunnþjónustu heilbrigðismála. Við skulum finna aðra staði til að skera niður á helst staði þar sem niðurskurðarhnífurinn hefur ekki verið látin skera til þessa
Kjartan Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins