Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ekki á minni bakvakt
Mánudagur 18. október 2010 kl. 13:12

Ekki á minni bakvakt

Ég var spurður að því að loknum vel sóttum samstöðufundi vegna Heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi sem haldinn var við Hótel Selfoss hvers vegna ég hefði haft forystu um að fjölmörg sunnlensk félagasamtök stóðu saman að þessum fundi. Því er fljót svarað. Þegar fjárlög fyrir árið 2009 voru kynnt sá ég strax hvert stefndi.


Að sjálfsögðu verðum við að draga saman í ríkisrekstrinum vegna efnahagskreppunnar, en hvers vegna eru settar fram tillögur um að skera niður með þessum hætti sjúkrahússtarfsemi á landsbyggðinni? Það er einfaldlega vegna þess að lengi hefur verið ásetningur margra í heilbrigðiskerfinu að byggja svokallað hátæknisjúkrahús í Reykjavík. Til þess að það megi verða nógu stórt og mikið þarf einfaldlega að leggja öll sjúkrahús á landsbyggðinni niður, annars höfum við ekki efni á að byggja í Reykjavík svo ekki sé talað um að reka slíkt sjúkrahús. Ég ritaði grein í staðarblöðin á Suðurlandi og Reykjanesi um þessi mál fyrir fjárlögin 2009 og benti þá þegar á þetta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eftir birtingu þeirrar greinar sem ég nefndi "EKKI Á MINNI VAKT" uppskar ég mikinn reiðilestur þáverandi heilbrigðisráðherra, hann taldi að sá stjórnmálamaður sem væri þeirrar trúar að ekki bæri að skera niður á Selfossi og í Reykjanesbæ væri ekki á vetur setjandi. Á þeim tíma voru þessi sjúkrahús fyrst og fremst fyrir miklum niðurskurði sem bitnaði á fæðingar- og skurðstofu starfsemi. Á þessari stundu varð mér ljóst að þær tillögur sem við nú sjáum í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi væru yfirvofandi. Allan þann tíma sem ég sat á alþingi var ég í miklu og góðu sambandi við stjórnendur þessara stofnana þó mest hér á Selfossi. Það voru ekki margir þingmenn né sveitarstjórnarmenn sem tóku undir með mér á þessum tíma. Þeir hafa ekki áttað sig á því sem var að gerast eða ekki haft kjark til að láta það í ljós. Mér finnst ótrúlega lúalegt að nota þá efnahagslegu neyð sem þjóðin býr nú við til að þröngva inn þessari kerfisbreytingu. Með henni erum við að skipta þjóðinni í tvo flokka sem er ekki til heilla við þær aðstæður sem nú eru uppi. Á Íslandi verður að búa ein þjóð sem tekur sameiginlega á sínum málum þar sem alls réttlætis er gætt. Ég mun hér eftir sem hingað til vinna að framgangi heilbrigðismála í mínu umhverfi. Ég vil þakka öllum sem tóku þátt í samstöðufundinum og lögðu honum lið á einn eða annan hátt.


Kjartan Ólafsson
Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.