Ekkert smá heppinn
Slagorðin í kringum happdrættin eru vel orðuð eins og sjá má í dagblöðum, einföld, þrælúthugsuð skilaboð sem ná oftast árangri: “Þú vinnur ekki á óendurnýjaðan miða” segir í einni auglýsingunni. Í öðrum tegundum happdrætta eru slagorðin ólíkari innbyrðis því meira úrval er boði, kerfisseðlar, ársáskriftir o.s.frv. en boðskapurinn yfirleitt svipaður: Þess minna sem þú vogar, þess meira missirðu af.
Í framandi borg, sé ég fyrir mér mann sem skautar á sléttum strigaskóm inn á skrifstofu aðalumboðs hjá happdrætti, seilist eftir veskinu í rassvasanum, dregur upp miða og réttir stúlkunni sem kemur fram til að afgreiða hann. “Viltu athuga hvort vinningur sé á þetta númer?”
Nokkrum andartökum síðar kemur stúlkan skælbrosandi til baka.
„Ekkert smá heppinn!! Þú varst að vinna nýjan bíl á miðann þinn!“ Maðurinn breytir ekki svip en undarlegur glampi kemur fram í augum hans. Hann dregur aftur upp miða úr veski sínu og réttir konunni. „Viltu athuga þá hvað ég hef unnið á þennan?“
Ofanrituð frásögn fær mann til að íhuga hvort til sé eitthvað sem heiti ásættanleg vinningsupphæð í hugum fólks eða hvort þessu sé þannig farið að aldrei sé nóg, nóg í þessum efnum.
Næst langar mig að snúa mér að öðru atriði af sama meiði.
Í franskri bíómynd, sem ég sá fyrir alllöngu, segir frá starfsfólki á lögreglustöð sem á það sameiginlegt að ekkert þeirra hefur nokkru sinni fengið meira en tvo rétta í Lottói. Lögreglustjórinn finnur út að yfir slíku óláni búi mikil heppni ef rétt er á málum haldið. Einu sinni í viku eru þessir starfsmenn fengnir til að velja sér líklegustu vinningstölurnar. Þegar búið er að skrá þær inn á töflu eru keyptir miðar á næsta Lottósölustað með þeim tölum sem enginn þeirra veðjaði á. Þær tölur reynast svo auðvitað laukréttar og þessir seinheppnu Lottóspilarar ásamt lögreglustjóranum hafa ekki undan að skipta á milli sín fúlgu fjár.
Ég hef aldrei getað áttað mig á því hvernig hægt er að skipta ekki upp vinningspotti að fullu þegar enginn er með allar tölurnar réttar í Lottói. Þegar þannig stendur á er vinningspotturinn látinn ganga lítt eða óskiptur yfir á næstu viku með opnum aðgangi fyrir nýja miðakaupendur.
Einföldum þetta dæmi og segjum að 5 manns myndi pottinn þessa vikuna og hver og einn er með 500 króna framlag í miðakaupum. Látum þetta gefa okkur í vinningsfjárhæð 2.500 krónur. Kúlurnar hoppa og skoppa á tilskildum degi en án vinningslukku fyrir þessa 5 aðila. Enginn af þessum mönnum vill vera með næstu vikuna á eftir en í þeirra stað bætast 5 nýir Lottóspilarar með sama framlag og breyta vinningspottinum í 5.000 krónur. Þessir síðarnefndu aðilar hafa ekki borgað nema helming þeirrar upphæðar sem þeir eiga nú möguleika á að vinna. Í framhaldi af þessu kemur síðan athyglisverður punktur: Þeir fyrrnefndu sem borguðu fyrstu 2.500 krónurnar, helminginn af vinningsupphæðinni í vinningspottinum, er bannaður aðgangur að sínu eigin vinningsframlagi nema þá aðeins að þeir kaupi sig inn aftur. Svona fyrirkomulag happdrættis með vinningsframlag hlutaðeigenda finnst mér að ætti að banna með öllu. Hér á að beita sömu reglu og var eða er í 1X2-getraunum að ef enginn er með 13 rétta færist vinningsupphæðin sjálfkrafa til þeirra sem hafa 12 rétta og svo koll af kolli.
Að lokum smá umfjöllun um spilafíkn.
Það besta sem getur hent mann með spilafíkn er að vinna aldrei stóran vinning, því með þverrandi heppni lærist honum að eyða peningunum sínum í eitthvað betra og skynsamlegra. Stóru vinningarnir hafa þá náttúru að viðhalda voninni um að hægt sé að snúa blaðinu við, sleppa með skrekkinn eða laga til áratuga eyðslu og óheppni t.d. í spilakössum. En þar er farið villu vegar. Vinningarnir færa mönnum aðeins enn meiri löngun til að halda óbreyttu ástandi áfram. Þess vegna er aldrei of seint að hætta og því fyrr því betra að taka á vandamálinu á raunhæfan hátt.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ