Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eitthvað annað‬ ‪- ‎áburðarverksmiðja nei takk‬
Laugardagur 28. maí 2016 kl. 19:06

Eitthvað annað‬ ‪- ‎áburðarverksmiðja nei takk‬

Guðmundur Bjarni Sigurðsson skrifar

Það vita það kannski ekki allir en í Reykjanesbæ er blómstrandi upplýsingatæknigeiri. Ég fór á stúfana fyrir ekki svo löngu og vildi halda tækni- og hönnunarhitting hérna á svæðinu. Það kom mér strax á óvart hversu mörg stöndug fyrirtæki eru staðsett hér, fannst eins og ég ætti að vita þetta verandi hluti af hópnum. Það eru ótal hönnunarfyrirtæki á svæðinu að hanna ótal hluti. Tæknifyrirtækin (forritun ýmis konar) eru ekki færri. Ég get í fljótu bragði talið upp fjögur fyrirtæki á Suðurnesjum sem hanna, forrita og viðhalda vefjum fyrir stærri og minni fyrirtæki hérna á svæðinu, út um allt land og allan heim. Þá eru ekki talin með þau fyrirtæki sem koma að sérhæfðari lausnum. Og það er mikið að gera hjá öllum. Gleymum heldur ekki þeim fjölmörgu sem búsettir eru hér en sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu: Hérna búa margir grafískir hönnuðir, vefhönnuðir, forritarar, vefforitarar, verkefnastjórar og stjórnendur í upplýsingatæknistörfum. Hér er sem sagt alvöru upplýsingatæknigeiri.

Hjá Kosmos & Kaos var aldrei spurning um annað en að hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Það vantaði sárlega eitthvað móralskt gott hingað á þeim tíma (árið 2010) og við kappkostuðum við hafa eins mikla starfsemi hér og mögulegt var. Versla heima, tala svæðið upp við hvert tækifæri, ráða fólk af svæðinu til starfa eða flytja það hingað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir skemmstu ákvað Reykjanesbær, stærsta sveitarfélagið á svæðinu, að færa alla vinnu við sína vefi úr heimabyggð og norður í Eyjafjörð. Tvö fyrirtæki í Reykjanesbæ hafa um árabil byggt upp og þjónustað veflausnir sveitarfélagsins. Norðan heiða er nú unnið að því afrita sjö ára gamlar hönnunaráherslur þessara heimafyrirtækja fyrir nýja vefi. Við reyndar stöndum hvorki né föllum með viðskiptum okkar við sveitarfélagið, en hvað er verið að pæla?

Við vitum hver staða Reykjanesbæjar er og hún gefur fullt tilefni til hagkvæmni í rekstri. Veflausnir eru hluti af þeirri hagkvæmni. Verkkaupi leggur út dágóða fjárhæð fyrir verkinu en ef vel er að verki staði hlýst ákveðin rekstrarleg hagkvæmni af góðum lausnum. Og hvað sparast með þeim gjörningi að flytja veflausnirnar til Eyjafjarðar? Ef litið er á stóra samhengið þarf að muna ansi miklu á tilboðum til að það borgi sig að færa þessi viðskipti úr heimabyggð.
Hönnunar- og UT (upplýsingatækni) fyrirtækin á Suðurnesjum borga sína skatta og skyldur hér. Fyrirtæki í sama geira í Eyjafirðinum borga sitt til samfélagsins þar.

Í ljósi þess að UT geirinn er sá hraðast vaxandi í heiminum er óhætt að líta á stuðning við uppbyggingu hönnunar- og UT fyrirtækja á landsbyggðinni sem fjárfestingu. Fjárfestingu í fjölbreytni í atvinnusköpun, í þekkingu, í búsetu, í nýsköpun o.fl. Fjárfestingu gegn spekileka.
Reykjanesbær hefur nú stigið stórt skref í að fjárfesta ekki í þessari þróun í sinni heimabyggð.
Reyndar er staðan þannig að aðeins fá fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Suðurnesjum kaupa sínar upplýsingatæknilausnir í heimabyggð, þrátt fyrir gríðarlega sterkan og vel samkeppnishæfan markað hér. Á sama tíma er kappkostað við að fá fólk til að versla heima.

Talað er fjálglega um þörf fyrir uppbyggingu þekkingarsamfélags á Suðurnesjum, aukna fjölbreytni í atvinnustarfssemi o.s.fv., en eins og flestir vita hefur Reykjanesbær m.a. farið flatt á því að setja öll sín egg í eina körfu. Hvar liggur svo stuðningur Reykjanesbæjar við fjölbreytta atvinnustarfssemi? Hann sést kannski einna best í eftirgjöf opinberra gjalda og greiðslufrestunum þeirra vegna mengandi „áburðarverksmiðja” í Helguvík.

Fyrir nokkru sat ég fund með ungu fólki af Suðurnesjum þar sem þau voru spurð að því við hvað þau vildu starfa í framtíðinni. Í þessum flotta hópi var fólk sem gekk um með drauma um að verða læknar, lögfræðingar, forritarar, hagfræðingar, hjúkrunarfræðingar o.fl. Ekkert þeirra, ekki eitt, talaði um að það ætti sér þann draum að vinna í „áburðarverksmiðjunum” í Helguvík.
Reykjanesbær hefur nú stigið stórt skref í átt að einhæfara atvinnulífi fyrir ungt fólk með stóra drauma. Þetta unga fólk mun, ef fram heldur sem horfir, þurfa að sækja vinnu í Reykjavík eða, guð hjálpi okkur, flytja norður í Eyjafjörð. Akureyri er samt fallegur bær, ekki misskilja mig.

Guðmundur Bjarni Sigurðsson
Frumkvöðull, vefhönnuður og eigandi Kosmos & Kaos í Reykjanesbæ, sem aldrei hefur farið fram á afslátt á opinberum gjöldum til sinnar heimabyggðar.