Eitt ár liðið síðan bandarískur her yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði
Það má segja að atvinnuástand hafi verið gott á öllu landinu undanfarin 2 ár og atvinnuleysi í sögulegu lágmarki miðað við landið í heild sinni.
Við á Suðurnesjum megum vel við una miðað við þær uppsagnir sem áttu sér stað vorið 2006 þegar öllum starfsmönnum Varnarliðsins var sagt upp störfum. Þar misstu vinnu sína hátt í 600 manns og meiri hlutinn eða 73% (429) var af Suðurnesjum en 27% (162) af höfuðborgarsvæði. Mikið framboð á atvinnu og eftirspurn eftir vinnuafli gerði það að verkum að fólk átti auðveldar með að finna sér starf að nýju.
Það var aðdáunarvert hvað forystumenn bæjarfélagsins og stéttarfélagana brugðust skjótt við. Það var unnið af kappi og í samvinnu við þá aðila sem komu að málum við að bregðast eins vel og hægt var við erfiðum kringumstæðum. Ráðgjafarstofa var sett á laggirnar sem sinnti eingöngu starfsmönnum Varnarliðsins með upplýsingar um störf í boði, námskeið o.fl. Þar unnu að stærstum hluta 2 starfsmenn sem unnu krefjandi og þýðingarmikið starf fram til áramóta 2006. Þegar upp var staðið komu samtals 110 manns inn á atvinnuleysisskrá sem telst í lægra mæli miðað við tölurnar á undan. Aldurssamsetning hópsins var ólík því sem við áttum að venjast þ.e.a.s. að fjölmennasti hópurinn var í aldurshópnum 50 ára og eldri. Það var líka eftirtektarvert í viðtölum við þennan myndarlega hóp hve fólk var almennt ánægt í fyrra starfi og jákvætt í viðmóti. Þó svo að enn sitji eftir fólk án atvinnu er það okkar von og trú að atvinnurekendur skoði betur þá möguleika að ráða til sín eldra fólk með mikla reynslu að baki og óbilandi kjark á nýja tíma.
Á tímabili voru menn uggandi um hvað og hvernig yrði að málum staðið varðandi það svæði sem skyndilega losnaði við brotthvarf hersins. Sem betur fer fóru þau mál á besta veg eins og alþjóð er þegar kunnugt um. Því má m.a. þakka góðu samstarfi og einhug okkar fólks heima í héraði. Þarna er orðið til eitt stórt skólasamfélag í sífelldri mótun auk þess sem fyrirtæki og verktakar sækja inn á svæðið sem er sniðið að fjölbreyttri þjónustu við okkar alþjóðlega flugvöll. Margir hafa byrjað nám við nýjan skóla (Keilir) og stefna ótrauðir á vit nýrra ævintýra. Suðurnesin standa frammi fyrir því í dag að vera einn fýsilegasti kosturinn þegar fólk ákveður sér búsetu og er af ýmsu að taka. Atvinna í boði, góðir skólar og metnaðarfullt starf í gangi innan þeirra, stutt í verslun og þjónustu, góðar vegasamgöngur o.fl.
Hér má nálgast greinina með grafík sem henni fylgir!
Ketill G. Jósefsson Steinunn B. Sigurðardóttir Vmst. á Suðurnesjum