Eineltismenning
Ég byrjaði að kenna þegar ég var innan við tvítugt og starfaði innan íslenska grunnskólakerfisins í næstum 20 ár. Fyrst sem kennari og síðan sem deildarstjóri. Árið 2003 var ég hluti af þriggja manna teymi sem sérhæfði sig í kenningum norska prófessorsins Dan Olweus um einelti í skólum. Olweus hafði rannsakað einelti í yfir 30 ár og mótaði kenningar sem notaðar eru víða um heim til að ná tökum á einelti. Ég hélt utan um starfið í nokkur ár og stýrði aðgerðum þegar grunur um einelti kom upp. Í þeirri vinnu fór ég smátt og smátt að beina sjónum mínum að fullorðna fólkinu í kringum nemendur, hvernig þeir nálguðust verkefnin, hvaða viðhorfum þeir beittu og hvernig samskiptin voru. Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna verkefni með skýr markmið og ákveðinn tilgang náðu ekki fram að ganga og hvers vegna vinnubrögð sem litu út fyrir að vera rétt og árangursrík báru ekki árangur.
Vangaveltur mínar fengu fræðilegt inntak þegar ég byrjaði í stjórnunarnámi við Háskóla Íslands. Í einu af fyrstu námskeiðunum kom Arna H. Jónsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kynnti rannsókn frá 2008 um átök í hópi fullorðins fólks. Rannsóknarniðurstöður gáfu til kynna að viðvarandi átök ættu sér stað innan vinnustaða þar sem fullorðið fólk starfaði. Átök milli ólíkra menningarafla og stjórnunaraðferða sem birtist í ýmis konar neikvæðum afleiðingum fyrir aðra. Átökunum fylgir stýring, þöggun og bæling ákveðinna hugmynda, upplifun fólks á að það hefði ekki vald yfir eigin starfi og upplifun á því að sérfræðiþekking og sérhæfing þeirra væri vannýtt. Rannsóknir um einelti á vinnustöðum og rannsóknir á einelti meðal sjómanna styðja þessa niðurstöðu.
Eftir að hafa velt fyrir mér einelti í 20 ár hef ég komist að þeirri niðurstöðu að einelti er samfélagslegt vandamál. Það er alveg sama hvaða aðferðum kennarar beita ef samfélagið byggir ekki á þeirri grundvallarhugmynd að það borgi sig að fara eftir reglunum. Að sama skapi er alveg sama hvernig við endurmótum hegðun barna í skólanum ef samfélagið kennir þeim að sá sem brýtur reglurnar, segir ósatt eða lærir að klekkja á öðrum fær stærstu verðlaunin. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að leiða breytingar á samfélaginu. Mín áhersla er að berjast gegn einelti á öllu sviðum samfélagsins en til þess að það sé hægt þarf að virkja hinn þögla meirihluta í íslensku samfélagi. Er hægt að breyta hugsjón og leikreglum íslenska samfélagsins þannig að þau einkennist fremur af samstöðu en samkeppni. Leggja af spillingu og lobbýisma í stjórnmálum og hefja til vegs og virðingar gamlar dyggðir. Er það ekki inntak þeirrar hugmyndar sem viljum byggja upp samfélagið okkar? Ef ekki fyrir okkur sjálf þá ættum við að gera það fyrir börnin okkar.
Inga Sigrún Atladóttir
- býður sig fram í 1. sæti VG í Suðurkjördæmi