Einelti er samfélagsvandamál
Margir telja afleiðingar eineltis vera eitt mesta heilsufarsvandamál nútímans og sérfræðingar hafa komið þeim skilaboðum til skóla og foreldra að mikilvægt sé að börnin geti leitað til ábyrgra aðila sem þau treysta verði þau fyrir einelti. Til þess að vinna gegn eineltisvandanum þurfum við stöðugt að halda uppi fræðslu um hvað einelti er, hvar það fer helst fram og hvernig það lýsir sér á hverjum tíma. Í þessu sambandi er mikilvægt að trúnaður myndist milli nemenda, foreldra og skólans. Til að það takist þarf að auka samstarf þessara aðila. Fræðsla, miðlun upplýsinga og aukin samskipti eru forsenda fyrir því að sá trúnaður myndist. Mikilvægt er einnig að viðkomandi aðilar temji sér jákvæð viðhorf í garð hvor annars, skoði saman hvað er í gangi til að geta brugðist við eineltinu á farsæla hátt og einnig til að bregðast ekki trúnaði barnanna.
Það er fagnaðarefni að nú hafa verið lögð drög að stofnun samtaka sem hafa þann tilgang að gæta hagsmuna foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda eineltis. Samtökin heita Liðsmenn Jerico og er þeim ætlað að vera vettvangur ráðgjafar fyrir þolendur eineltis og aðstandendur þeirra. Slíkur stuðningur er mikilvægur.
Fyrir nokkrum árum komu grunnskólanemendur í Reykjavík fram í fjölmiðlum og sögðu frá einelti á netinu sem færi þannig fram að einhverjir taka sig saman í lið og útiloka einn eða senda sín á milli andstyggilegar athugasemdir og óhróður um ákveðinn einstakling.Við höfum líka heyrt um einelti sem fer fram á mynda – og bloggsíðum sem margir krakkar halda úti. Sumir hafa gestabók þar sem fólk getur komið með athugasemdir eða skráð sig.Vitað er um ógeðfellda leið til eineltis sem fer þannig fram að hópur gerir með sér samkomulag um að skoða ekki ákveðin myndaalbúm eða gestabækur og nota það sem leið til að útskúfa og leggja þannig í einelti.
Við þurfum að skoða okkur sjálf betur og setja okkur í spor þolenda eineltis. Er hugsanlegt að við sjálf eða börnin okkar séum hluti af hinum afskiptalausa þögla hópi sem leggst á sveif með gerandanum? Við þurfum að skoða hvernig slíkt ójafnvægi myndast að sumir taki sér vald sem þeim hefur ekki verið veitt. Meirihlutinn fylgist svo aðgerðarlaus með og tekur þannig beinlínis þátt í ódæðinu, kannski án þess að gera sér grein fyrir alvarleika málsins.
Stundum er eins og ákveðinn hópur leggist gegn einum aðila án augljósrar ástæðu og upp úr þurru myndast hópur gegn einum. En hvernig gerist þetta og hverjar eru afleiðingarnar?
Oft er sagt að það læri börnin sem fyrir þeim er haft og við ættum ekki að verða hissa þó börnin hermi eftir því sem þau heyra og sjá á skjánum. Í þessu sambandi koma upp í hugann ýmsir vinsælir sjónvarpsþættir sem beinlínis ganga út á það að útskúfa einn í einu frá þátttöku, jafnvel í beinni útsendingu og menn eru “jarðaðir” á staðnum eða reknir heim stundum með niðurlægjandi athugasemdum. Það getur líka verið nokkuð óljóst út frá hverju er gengið eða hvað þarf til en þessir þættir eru vinsælir meðal barna og unglinga. Stundum eru það sterkustu eða hæfileikaríkustu einstaklingarnir sem eru einmitt kosnir úr leik. Menn sameinast um að kjósa þá úr leik svo þeir fái ekki stóra vinninginn. Hvað er það þá sem gildir til að vinna leikinn og út frá hverju er gengið? Hverjar eru leikreglurnar?
Ef við veltum fyrir okkur siðferðinu eða gildismatinu sem kemur fram í þessum leikjum eða þáttum sem börn okkar sitja með andakt yfir gætum við í framhaldinu velt því fyrir okkur hvort og hvaða áhrif það getur haft á hegðun og líðan þeirra. Foreldrar kynnið ykkur eineltisáætlanir í ykkar skóla og aflið ykkur upplýsinga um hvernig tekið er á einelti í umhverfi barna ykkar og vekið athygli á því sem vel er gert. Umfram allt ræðið um einelti við börnin og hugið að líðan þeirra.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla landssamtökum foreldra