Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eiga íbúalýðræði og álver ekki lengur samleið?
Fimmtudagur 14. ágúst 2008 kl. 10:18

Eiga íbúalýðræði og álver ekki lengur samleið?


Inga Sigrún Atladóttir bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogum:

Á Suðurnesjum er unnið að byggingu álvers í Helguvík. Álverið þarf starfsleyfi og rafmagn, raforkuflutningskerfi og jákvætt viðhorf kjörinna fulltrúa. En hvað með íbúalýðræði? Hefur það eitthvað að segja í þessu samhengi? Eða hafa sveitarstjórnarmenn lært sína lexíu eftir íbúakosninguna í Hafnarfirði?
Í Sveitarfélaginu Vogum var haldinn íbúafundur þann 20. júní 2007. Á fundinum lét forseti bæjarstjórnar fundarmenn kjósa með handauppréttingu milli þess að leyfa rafmagnslínur ofanjarðar í sveitarfélaginu og að leggja raflínur í jarðstreng. Samþykkt var nær einróma að þær rafmagnslínur sem leggja þarf í gegnum land sveitarfélagsins yrðu lagðar í jörð. Stuttu seinna sendi umhverfisnefnd sveitarfélagins frá sér einróma yfirlýsingu um að rafmagnslínur vegna stóriðja á Suðurnesjum yrðu lagðar í jörð meðfram Reykjanesbraut eða í sæstreng frá Keilisnesi að Helguvík.

Í tæpt ár höfum við í minnihluta bæjarstjórnar hlustað á sjónarmið Landsnets, kynnt okkur áætlanir þeirra og rætt við forsvarsmenn álversins sem byggja á í Helguvík. Öll rök Landnets hníga að því að þær rafmagnslínur sem þeir vilja leggja í gegnum land sveitarflélagsins verði ekki lagðar í jörðu.
Við höfum lagt áherslu á að farið sé eftir vilja íbúa sveitarfélagsins í þessu máli og þannig reynt að gæta hagsmuna bæjarbúa. Við höfum lagt áherslu á að Landsnet semji við landeigendur um kaupverð á landi eða leiguverð þannig að hægt sé að meta kostnað fyrirtækisins á raunhæfan hátt. Á þetta hefur ekki verið hlustað.

Á síðustu mánuðum höfum við í minnihluta bæjarstjórnar rætt við íbúa sveitarfélagsins og safnað undirskriftum þar sem krafist er íbúakosningar í kjölfar upplýstrar umræðu um þessi mál. Fjöldi íbúa hefur skrifað undir áskorun til bæjarstjórnar um að leyfa slíka kosningu. Það er réttlætismál að um þetta mál verði kosið ef ganga á gegn ályktun íbúafundarins.

Þessi umræða er ekki auðveld og við höfum þurft að sitja undir ýmiskonar ómálefnalegum rökum vegna afstöðu okkar. Við erum einföld, óábyrg og kjánaleg. Við stundum áróður og múgsefjun auk þess sem málflutningur okkar þykir staðfesta að við stöndum gegn framþróun og atvinnuuppbyggingu. Þrátt fyrir það spyrjum við ennþá: Skiptir skýr vilji bæjarbúa í litlu sveitarfélagi virkilega engu máli?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mynd: Ellert Grétarsson.