Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Ég var bara að leika“
Laugardagur 26. desember 2009 kl. 13:48

„Ég var bara að leika“

Hjallastefnan hefur hvarvetna vakið athygli fólks þau 20 ár sem hún hefur verið við lýði á Íslandi. Nú í haust varð leikskólinn Hjalli 20 ára en 10 ár eru síðan Hjallastefnan ehf. var stofnuð. Skólar Hjallastefnunnar eru orðnir 13 talsins og hefur hróður fyrirtækisins vaxið innan lands sem utan. Skólanámskrá Hjallastefnunnar er nú líklegast ein sú þekktasta og athyglisverðasta á Norðurlöndum og dregur hún til sín fjölda erlendra gesta ár hvert ásamt því að nemar og rannsakendur frá öðrum löndum hafa verið fjölmargir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á Reykjanesi eru 3 Hjallastefnuleikskólar, Akur, Gimli og Völlur. Í þessum skólum eru tæplega 300 börn.
Fimm ára starf í skólum Hjallastefnunnar er búið að vera í sífelldri þróun sl. ár og nú á haustdögum leit dagsins ljós sérstök námskrá í íslensku og stærðfræði, sem er í gildi fyrir fimm ára nemendur skólanna. Námskráin fylgir starfslotum kynjanámskrár Hjallastefnunnar (agi, sjálfstyrking, samskipti, jákvæðni, vinátta og áræðni) sem og Aðalnámsrá Leikskóla.


Í stærðfræði er farið þrisvar sinnum í fjögurra vikna stærðfræðivinnu þar sem unnið er með talnaskilning og grunnaðferðir stærðfræðinnar. Þessi vinna fer fram í hópatímum fjóra daga vikunnar (mánudaga til fimmtudaga) 30 mínútur í senn. Unnið er með þrautalausnir og einfalda talnavinnu á grundvelli uppgötvunarnáms og leikjaaðferða.


Markmið 5 ára kjarna í stærðfræði er að börnin öðlist jákvæða upplifun á stærðfræðilegum viðfangsefnum og þekkingu á helstu grunnhugtökum í gegnum leik. Börnin fá að kanna, uppgvöta og leika sér sem stuðlar að jákvæðu viðhorfi til námsins. Námsefnið er útfært í gegnum leikinn því leikurinn er uppspretta mikillar gleði og skemmtunar og möguleikarnir óteljandi þegar útfæra á námsefni. Leikur sem kennsluaðferð er ótrúlega öflug og áhrifarík leið til að bæta við þekkingu og börn læra mest í umhverfi sem gefur þeim tækifæri til þess að kanna, uppgvöta og leika sér.


Í íslensku er einnig farið þrisvar sinnum í fjögurra vikna íslenskuvinnu þar sem unnið er með hljóðgreiningu, stafainnlögn og raddlestur. Þar er einnig unnið í 30 mínútur í senn og einnig fjóra daga vikunnar.


Markmið 5 ára kjarna í íslensku er að börnin efli orðaforða sinn með fjölbreyttu tungutaki í samskiptum og að börnin kunni að ríma og fái tilfinningu fyrir hrynjanda orða. Farið er í gegnum stafainnlögn og markmiðið er að börnin þekki að vori alla bókstafi, hljóð þeirra, heiti og geti skrifað þá. Lögð er áhersla á hlustun og upplestur og að börnin fái þjálfun í að tjá sig frammi fyrir öðrum og skiptast á skoðunum. Í skrift eru fínhreyfingar nemenda þjálfaðar á fjölbreyttan hátt og fá þeir margskonar tækifæri til að skrifa á þann hátt sem þeir eru færir um, hvort sem það sé skrifað úti með krít, í snjóinn, í sand eða þar til gerðan pappír. Oft á tíðum gera nemendur sér ekki grein fyrir lærdómnum sem fylgir verkefnunum.....þau eru bara að leika.


Meðfylgjandi myndir eru af opnunarhátíð fimm ára kjarna á Velli ásamt myndum af þeim efnivið sem þróaður hefur verið hjá kennurum fimm ára nemenda. Hingað til höfðu nemendur verið saman á aldursblönduðum kjörnum eins og er á Akri og Gimli. Börnin buðu foreldrum sínum á opnunarhátíðina þar sem gleðin var allsráðandi og eru börn jafnt sem foreldrar og kennarar ofurspennt fyrir þessu nýja fyrirkomulagi.

Grein frá Hjallastefnunni.