Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ég styð Samfylkinguna
Þriðjudagur 25. október 2016 kl. 20:38

Ég styð Samfylkinguna

Ég styð Samfylkinguna því hún vill að Íslendingar geti verið stoltir af heilbrigðiskerfinu sínu. Ég styð hana því ég þekki fólk sem glímir við andleg vandamál og Samfylkingin er sá flokkur sem hvað mest hefur látið sig þau mál varða og blæs til stórsóknar í geðheilbrigðismálum á Íslandi í stefnuskrá sinni.

Ég styð Samfylkinguna vegna þess að hún berst fyrir mannréttindum, og hefur leitt baráttuna fyrir réttindum hinsegin fólks, fatlaðs fólks og kvenréttindabaráttuna á Íslandi síðustu ár. Þá hefur hún einnig barist fyrir réttindum og móttöku flóttafólks.

Ég styð Samfylkinguna því hún vill að á Íslandi sé öflugt atvinnulíf sem ýtir undir nýsköpun, ekki síst innan okkar mikilvægustu atvinnugreina, atvinnulíf sem stuðlar að grænu hagkerfi og styrkir velferðarkerfið okkar. Ég styð Samfylkinguna því hún áttar sig á því að til að skapa grundvöll fyrir nýsköpun þarf gott menntakerfi til að virkja hugvit okkar allra.

Ég styð Samfylkinguna því hún kom af stað vinnu við nýja stjórnarskrá og treysti ég henni best til að klára þá vinnu eftir þriggja ára stöðnun á kjörtímabilinu. Samfylkingin hefur talað fyrir uppstokkun á kvótakerfinu frá stofnun og finnst mér að íslenska þjóðin eigi að fá réttlátan hlut af arðinum sem skapast á fiskimiðunum okkar.

Sem Suðurnesjamaður styð ég Samfylkinguna því formaður Samfylkingarinnar hefur verið einn besti þingmaður Suðurnesjanna síðustu ár. Oddný Harðardóttir hefur á kjörtímabilinu lagt fram tillögur um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og skóla á Suðurnesjum, flutning Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur, uppbyggingu Helguvíkurhafnar og könnun á kostum flutnings innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar en þær hafa allar verið felldar (og þetta eru bara nokkur dæmi). Þessar tillögur hefðu óumdeilanlega haft jákvæð áhrif á svæðið hefðu þær orðið að veruleika.

Ég styð Samfylkinguna því ég þykist sjá fram á það að næsta laugardag verði það hugsjónir jafnaðarstefnunnar sem þjóðin kallar eftir og ég treysti engum betur en liðsmönnum Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands til að framfylgja þeirri stefnu.

Marinó Örn Ólafsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024